Hæfileikarík börn í Breiðholti | Reykjavíkurborg

Hæfileikarík börn í Breiðholti

sunnudagur, 11. febrúar 2018

Föstudaginn 9. febrúar hélt Frístundamiðstöðin Miðberg árlega hæfileikakeppni, Breiðholt got Talent, í hátíðarsal Breiðholtsskóla. Keppnin var nú haldin í níunda sinn og mikill metnaður var lagður í að öll umgjörð væri hin glæsilegasta og ljósa- og hljóðbúnaður eins og best yrði á kosið.

  • SigurvegararnirElna Mattína og Hrafnhildur Hanna
    Sigurvegararnir í keppni frístundaheimilanna, Elna Mattína og Hrafnhildur Hanna.
  • Allir keppendurnir ásamt borgarstjóra
    Allir yngri keppendurnir ásamt borgarstjóra

Keppnin var tvískipt; síðdegis sýndu 6-9 ára börn af frístundaheimilunum í Breiðholti listir sínar. Tólf atriði voru á dagskrá, m.s. söngur, dans, rapp, píanóleikur, fimleikar, glíma og karate. Þær Elna Mattína Matthíasdóttir og Hrafnhildur Hanna Friðjónsdóttir, frá frístundaheimilinu Hraunheimum, komu sáu og sigruðu þegar þær fluttu lagið Vögguvísur. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, sá um að veita sigurlaunin, sem er farandgripur.

Um kvöldið var komið að unglingunum úr félagsmiðstöðvunum að láta ljós sitt skína. All voru sautján atriði í keppninni frá félagsmiðstöðvunum Hólmaseli, Bakkanum og 111.  Yfir 200 manns komu og horfðu á keppnina sem er merki um hversu rótgróin og spennandi þessi viðburður er í Breiðholtinu. 

Fyrirkomulag keppnarinnar er í anda Britain‘s Got Talent þar sem dómarar velja fimm bestu atriðin og svo kjósa áhorfendur í sal það sem þeim finnst standa upp úr. Fulltrúar frá hverri félagsmiðstöð sendu einn dómara hver til leiks og  voru þeir í hlutverkum í anda sjónvarpskeppninnar. Það gerir keppnina enn skemmtilegri og líflegri fyrir vikið sérstaklega þegar dómarar eru ósammála og áhorfendur taka virkan þátt í upplifuninni. Keppnin var hörð og enduðu dómarar á því að velja sex bestu atriðin en ekki fimm eins og venjan er. Áhorfendur og keppendur kusu síðan og enduðu leikar þannig að Sólbjörg og Rúna frá 111 hrepptu þriðja sætið með frábæru dansatriði, Sólveig og Annía úr Hólmaseli lentu í öðru sæti með mögnuðu söngatriði. Mikael Orri frá 111 kom sá og sigraði Breiðholt Got Talent með framúrskarandi söngatriði og skemmtilegri sviðsframkoma og mikilli útgeislun. 

Framtíðin er svo sannarlega björt í Breiðholti.