Hádegisjazz til heiðurs Leonard Bernstein | Reykjavíkurborg

Hádegisjazz til heiðurs Leonard Bernstein

mánudagur, 5. mars 2018

Borgarbókasafn verður með Jazz í hádeginu á fimmtudag, föstudag og laugardag.  Tónleikaröð safnsins Jazz í hádeginu fékk nýverið tilnefningu sem viðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.

  • Hjörtur Ingvi Jóhannsson ásamt Leifi Gunnarssyni.
    Hjörtur Ingvi Jóhannsson og Leifur Gunnarsson.

Það verður jazzað í Grófinni á fimmtudegi og Gerðubergi á föstudegi frá 12.15 til 13. Og loks í Spönginni á laugardeginum frá 13.15-14.. 

Að þessu sinni verða tekin fyrir verk Leonards Bernstein sem þekktastur var fyrir að stjórna sinfóníuhljómsveit New York auk þess sem hann samdi tónlistina í söngleikjum á borð við West Side Story og Peter Pan. Hjörtur Ingvi Jóhannsson píanóleikari leiðir tríó en auk hans skipa það Magnús Trygvason Elíassen á trommur og Leifur Gunnarsson á kontrabassa. Flutt verða helstu söngleikjaperlur Bernsteins í útsetningum tríósins en Bernstein hefði orðið 100 ára á þessu ári.

Um Hjört Ingva

Hjörtur Ingvi er fæddur í Reykjavík þann 7. september 1987. Hann hóf ungur píanónám í Tónskóla Eddu Borg, en þaðan lá leiðin í Tónlistarskóla F.Í.H., þaðan sem hann útskrifaðist með burtfararpróf í klassískum píanóleik árið 2010. Eftir að hafa lagt stund á hagfræði við H.Í. Þá hóf Hjörtur nám við Konservatoríið í Amsterdam, þaðan sem hann útskrifaðist með B.M. gráðu í jasspíanóleik, sem innihélt einnig kennsluréttindi. Að lokinni útskrift þaðan sumarið 2015 fluttist Hjörtur aftur til Íslands, þar sem hann starfar sem tónlistarmaður og píanókennari.

Hjörtur er hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín, og er virkur í tónlistarlífi landsins, þ.á.m. sem sjálfstæður lagasmiður, útsetjari í hinum ýmsu hljómsveitum og leikhúsum. Hann hefur vítt áhugasvið, en hefur síðustu árin einbeitt sér að jass og popptónlist. Hjörtur kennir einnig píanóleik við Tónlistarskóla Árbæjar og spilar meðleik í Tónlistarskóla FÍH.