Gripið til aðgerða til að bregðast við manneklu

Skóli og frístund

""

Meirihluti skóla- og frístundaráðs lagði til á fundi sínum 27. september að gripið verði til margvíslegra aðgerða til að bregðast við manneklu í leikskólum, frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum.

Lagt er til að átta tillögur sem aðgerðarteymi í leikskólum lagði fram komi strax til framkvæmda og fjórar tillögur aðgerðateymis í frístundastarfi. Skóla- og frístundaráð samþykkti að vísa þessum tillögum til borgarráðs til endanlegrar afgreiðslu.

Meðal aðgerða sem lagt er til í leikskólum er að auka fjárframlög til að mæta auknu álagi á starfsfólk og bæta liðsanda á vinnustað, fjölga starfsmannafundum utan dagvinnutíma og veita stjórnendum eingreiðslu vegna álags. Einnig fá leikskólar sem glíma við manneklu heimild til að greiða fyrir undirbúningstíma í yfirvinnu og fjármagn til kynningarstarfs til að laða að nýtt starfsfólk. Kostnaður vegna þessara aðgerða er metinn um 127 m.kr. Öðrum tillögum aðgerðateymis verður annars vegar vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda Reykjavíkurborgar.
Sjá tillögur aðgerðateymis til að mæta manneklu og efla mannauð í leikskólum.

Aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum felur m.a. í sér fjármagn til að mæta auknu álagi á starfsfólk og bæta liðsanda, hækkun á efnis- og rekstrarframlögum, eingreiðslu til stjórnenda og námsleyfi fyrir starfsmenn. Kostnaður vegna þeirra aðgerða er áætlaður um 22 m.kr.  Öðrum tillögum aðgerðateymis til að mæta manneklu í frístundastarfi verður annars vegar vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda Reykjavíkurborgar.
Sjá tillögur aðgerðateymis til að mæta manneklu og efla mannauð á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum.