Greiðslur sérstakra húsaleigubóta

Velferð

""

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vinnur nú að útfærslu á greiðslum sérstakra húsaleigubóta til leigjenda Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Enn sem komið er liggja einungis fyrir almennar upplýsingar um gang mála en stefnt er að því að allir, sem rétt eiga, fái greiðslu fyrir árslok.

Er þetta í samræmi við samþykkt sem borgarráð gerði á fundi sínum þann 3. maí síðastliðinn. Haft verður samráð við Öryrkjabandalag Íslands og nánari upplýsingar birtar  um leið og þær liggja fyrir. 

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 gerði fjöldi einstaklinga kröfu um greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann. Voru þær kröfur teknar til skoðunar og nemur upphæð greiðslna sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann um 57 mkr. til 150 heimilis. Upphæðirnar eru mismunandi en hafa numið frá 100.000 kr. til allt að 1,5 mkr. Þeir sem fengu greitt í kjölfar dómsins voru þeir sem gerðu kröfu um að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann og áttu gilda umsókn, þ.e. höfðu sótt um sérstakar húsaleigubætur á einhverjum tímapunkti en verið synjað á grundvelli þess að þeir voru í húsnæði á vegum ÖBÍ. Þeir fengu greitt frá þeim tíma sem þeir sóttu um en þó ekki lengra en fjögur ár aftur í tímann vegna fyrningarfrests.

Í tillögu borgarstjóra sem var samþykkt á fundi borgarráðs þann 3. maí 2018 var samþykkt að greiða öllum sem leigðu hjá Brynju, hússjóði ÖBÍ, fjögur ár frá uppkvaðningu Hæstaréttardómsins, óháð því hvort þeir áttu umsókn eða ekki.

Greiðslur sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann til þeirra einstaklinga sem tillaga borgarstjóra, dags. 2. maí 2018, tekur til, eru ekki hafnar en undirbúningsvinna er í fullum gangi. Fyrirhugað er að fyrstu greiðslur fari fram á næstu vikum og ljúki á árinu 2018.

Óljóst er hvað á eftir að greiða mörgum einstaklingum sérstakar húsaleigubætur aftur í tímann. Á þeim lista sem velferðarsvið Reykjavíkurborg hefur verið að vinna eftir eru rúmlega 600 einstaklingar en listinn byggist á þeim einstaklingum sem fengu greiddar almennar húsaleigubætur á tímabilinu 1. júní 2012 til 31. desember 2018. Verið er að kanna hvort þessir einstaklingar uppfylli skilyrði fyrir greiðslu sérstakra húsleigubóta aftur í tímann.

Útreikningi á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann er ekki lokið af hálfu Reykjavíkurborgar og liggur heildarfjárhæð því ekki fyrir en þegar hafa verið greiddar um 57 mkr.

 Hafist var handa við að greiða sérstakar húsaleigubætur afturvirkt til þeirra sem gerðu kröfu um slíkt strax í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015. Greiðslur sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann til þeirra einstaklinga sem tillaga borgarstjóra, dags. 2. maí 2018, tekur til eru ekki hafnar en undirbúningsvinna að því er í fullum gangi. Fyrirhugað er að greiðslur fari fram á næstu vikum og ljúki á árinu 2018.

Samþykkt borgarráðs þann 3. maí 2018