Grasagarðurinn í Reykjavík tilnefndur til safnaverðlauna

""

Grasagarður Reykjavíkur var í dag eitt af þremur söfnum sem tilnefnt er til safnaverðlaunanna í ár.  Listasafn Árnesinga og Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands voru einnig tilnefnd til verðlaunanna í ár.

Grasagarðurinn er tilnefndur fyrir að gefa ómetanlega innsýn í flóru Íslands og er garðurinn einstakur meðal safna á Íslandi. Það segir einnig í mati valnefndar að garðurinn er lifandi safn undir berum himni, með lifandi safngripum. Fræðsla er mikilvæg stoð í starfseminni, ásamt rannsóknum þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt samstarf. það verður ljóst hver hlýtur safnaverðlaunin í ár fimmta júní næstkomandi.

Hlutverk Grasagarðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Í garðinum eru varðveittar um 5000 plöntur í átta safndeildum. Plöntusöfnin gefa hugmynd um fjölbreytni gróðurs í tempraða beltinu nyrðra. Sérhver safndeild gegnir ákveðnu hlutverki, til dæmis að sýna og kynna íslenskar plöntur, trjágróður eða mat- og kryddjurtir.

Eitt meginhlutverka Grasagarðsins er fræðsla og boðið er upp á fjölbreytta fræðslu fyrir almenning og skólahópa allt árið um kring. Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu. 

Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er rekinn af Reykjavíkurborg. Það er umhverfis- og skipulagsráð borgarinnar sem fer með málefni garðsins.

Grasagarðurinn í Reykjavík