Grasagarðurinn í glæstum hópi safna

Skipulagsmál Umhverfi

""

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn í dag, þann 5. júní á Bessastöðum. Þrjú söfn voru tilnefnd: Grasagarður Reykjavíkur, Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands og Listasafn Árnesinga sem fékk verðlaunin. Fram kom að Grasagarðurinn er einstakur meðal safna á Íslandi.

Mikill heiður felst í tilnefningu til safnaverðlaunanna og var margt starfsfólk allra þessara safna mætt á Bessastaði. Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari og formaður dómnefndar gerði grein fyrir störfum hennar. Björk Þorleifsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir Grasagarðinn en Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður er erlendis um þessar mundir.

Grasagarður Reykjavíkur

Grasagarður Reykjavíkur er lifandi safn undir berum himni. Þar er varðveittur stór hluti af íslensku háplöntuflórunni ásamt fjölbreyttu úrvali erlendra plantna. Heildarfjöldi safngripa er um 5.000, skipt í átta safndeildir. Hlutverk Grasagarðsins er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Plöntusöfnin gefa hugmynd um fjölbreytni gróðurs í tempraða beltinu nyrðra. Grasagarðurinn er starfræktur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. 

Grasagarðurinn stendur fyrir öflugri fræðslustarfsemi fyrir almenning og skólahópa árið um kring, enda er fræðsla eitt af meginhlutverkum hans. Markmið fræðslunnar er að nýta hin margvíslegu plöntusöfn til fræðslu um umhverfið, garðyrkju, grasafræði, dýralíf, garðmenningu og grasnytjar, sem og til eflingar útiveru og lýðheilsu. Auk fræðslusamstarfs við leik- og grunnskóla borgarinnar hefur Grasagarðurinn verið í samstarfi við m.a. Kvikmyndasafn Íslands, Garðyrkjufélag Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands. Ýmis samstarfsverkefni á sviði rannsókna og söfnunar hafa ennfremur verið unnin á undanförnum árum í Grasagarðinum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Lystigarð Akureyrar, Norræna genabankann o.fl.

Mat valnefndar er að Grasagarður Reykjavíkur gefi ómetanlega innsýn í stórmerkilega flóru Íslands.

Grasagarðurinn er einstakur meðal safna á Íslandi. Garðurinn er lifandi safn undir berum himni, með lifandi safngripum. Fræðsla er mikilvæg stoð í starfseminni, ásamt rannsóknum, þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt samstarf.

Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands

Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði menningarminja og leiðandi á sínu sviði. Þar er varðveittur mikilvægur minjaauður þjóðarinnar, sem er í senn kveikja þekkingar og nýsköpunar. Mat valnefndar er að varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands muni hafa
afgerandi áhrif á fagleg vinnubrögð starfsmanna safna um allt land.

Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga býður upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einkaog samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins. Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

Listasafn Árnesinga hlaut safnaverðlaunin 2018.

Tengill 

Tilnefningar