No translated content text
Tómas Örn Guðlaugsson var valinn með slembivali í íbúaráð Grafarvogs. Það er eiginlega lyginni líkast því Tómas hefur búið allt sitt líf í Grafarvogi og starfar þar í dag og ekki nóg með það, heldur voru afi hans og amma ábúendur á bænum Dofra frá árinu 1976 til 1988 þar sem móðir hans ólst upp. Fjölskyldan hefur búið í Grafarvogi síðan á áttunda áratugi síðustu aldar en þar var þá fátt annað en áburðarverksmiðjan og örfáir bæir, eins og Dofri, þar sem afi hans og amma héldu hesta.
„Ég fékk bréf með boði um að taka sæti í íbúaráði en ég lít sjaldan í pósthólfið og það var því ekki fyrr en hringt var í mig að ég vissi af boðinu. Ég vissi ekkert um íbúaráð og starf þess en sagði samt strax já því ég hef mikinn áhuga á hverfinu mínu. Á fyrsta fundinum hitti ég Ragnar Harðarson, en hann sá árum saman um félagsmiðstöðina í Hamrahverfi, þar sem ég var virkur í starfi. Það var gott að sjá strax kunnuglegt andlit,“ segir Tómas.
Frábært að alast upp í Grafarvogi
„Í íbúaráði gefst mér tækifæri til að leggja mitt af mörkum til hverfisins. Ég átti frábæra æsku í Hamrahverfi. Þar þekkjast allir en ég á tvo eldri bræður og eina systur svo við eigum marga góða félaga og vini í Grafarvogi. Samgöngur hafa verið góðar milli hverfishluta og ég hef eignast vini í öllu hverfinu,“ segir Tómas.
Tómas segir helst há hverfinu hvað samgöngur séu erfiðar frá því. Aðeins tvær leiðir séu út úr Grafarvoginum og úr því þurfi að bæta. Hann segir vonir standa til að það lagist með Sundabraut og tengingu við nýja íbúðabyggð í Vogahverfi. „Það er erfitt að lifa bíllausum lífsstíl í Grafarvogi en íbúar binda vonir við Borgarlínu og þróun hverfisins. Ég get nefnt Gufunesið sem dæmi, þar sem stílað er inn á ungt fólk og grænan lífsstíl. Þróun þar gæti aukið möguleika íbúa sem velja bíllausan lífsstíl. Einnig eru bundnar vonir við nýtt Höfðahverfi en þar eru tækifæri til að auka aðdráttarafl hverfisins enn frekar.“
Spennandi tímar framundan í hverfinu
Tómas býr sjálfur í Bryggjuhverfinu og er mjög ánægður. „Ég heillaðist af staðsetningunni þegar ég lék mér hérna sem gutti og þegar hverfið var byggt gat ég strax hugsað mér að búa þar. Þótt póstnúmerið sé 110 telst hverfið til Grafarvogs. Ég er enga stund að ganga yfir voginn í Hamrahverfið til mömmu,” segir Tómas brosandi og bætir við að bæði á Höfða og í Spönginni megi nálgast nær alla þjónustu.
Tómas segir byggðina mjög blandaða í hverfinu og að þar sé eiginlega allt til alls. Helst megi bæta nærþjónustu í hverfahlutum en fólk þurfti oft að keyra til að sækja hana. Tómas er staðráðinn í að búa áfram í Bryggjuhverfi og telur spennandi tíma framundan í þróun byggðar í Grafarvogi og nágrenni, sem muni bæta þjónustu og efla hróður hverfisins.
Íbúaráð Reykjavíkur
Íbúaráð Reykjavíkur eru lifandi samstarfsvettvangur íbúa, bakhóps hverfisins, félagasamtaka, atvinnulífs og borgaryfirvalda. Með íbúaráðunum er ætlunin að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar og efla möguleika íbúa á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Fulltrúar í hverju íbúaráði eru sex talsins; þrír pólitískir, tveir úr grasrót í viðkomandi hverfi og einn slembivalinn.