Grænt bókhald fyrir alla borgina | Reykjavíkurborg

Grænt bókhald fyrir alla borgina

miðvikudagur, 14. mars 2018

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur verið með grænt bókhald frá árinu 2013. Nú hefur það verið tekið upp fyrir borgina alla.

  • Kolefnisfotspor, umfang og skilgreining
    Kolefnisfotspor, umfang og skilgreining

Grænt bókhald Reykjavíkurborgar er nú sett fram í fyrsta sinn fyrir alla borgina. Tekið er mið af umhverfis- og auðlindastefnu borgarinnar sem finna má í Aðalskipulagi Reykjavikur þegar grænt bókhald er unnið.Grænt bókhald hefur verið gefið út hjá umhverfis- og skipulagssviði  síðan árið 2013 meðal annars út frá umhverfisstjórnunarkerfi sviðsins samkvæmt ISO 14001.

Kolefnishlutleysi árið 20140

Umhverfisþættir sem settir eru fram í grænu bókhaldi Reykjavíkurborgar eru eldsneyti, rafmagn og úrgangur. Bókhaldið nær yfir starfsemi borgarinnar í heild sinni og tekur meðal annars mið af loftslagsmarkmiðum sem felst í kolefnishlutleysi árið 2040.

Unnið var með hugbúnaðarfyrirtækinu Klöppum að því að ná utan um magntölur en gögnum er streymt beint frá birgjum í gegnum upplýsingagátt. Losun gróðurhúsalofttegunda er reiknuð í samræmi við aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol, sem fylgt er af aðildarfyrirtækjum loftslagsyfirlýsingar  Reykjavíkurborgar og Festu.

Birting niðurstaðna verður í gegnum tölfræðivef Reykjavíkurborgar og í gegnum sérstaka umhverfisskýrslu sem verður birt samhliða fjárhagsuppgjöri hvers árs. Helstu niðurstöður 2015-2016 eru að notkun á eldsneyti jókst lítillega milli ára. Aukning er helst í metani á kostnað bensíns og í samræmi við það minnkar losun gróðurhúsalofttegunda vegna eldsneytisnotkunar.

Hlutfall vistvænna ökutækja í rekstri borgarinnar lækkar á milli ára. Rafmagnsnotkun stendur í stað en mikil aukning á skráðri losun vegna rafmagnsnotkunar skýrist af sölu á upprunaábyrgðum og sést einnig á hlutfalli endurnýjanlegrar orku sem fer niður um 50%. Úrgangur eykst en flokkaður úrgangur er meiri og er því losun vegna úrgangs minni en ella auk þess sem kostnaður pr. tonn lækkar á milli ára.

Vistvæn ökutæki

Nefna má sem dæmi úr bókhaldinu að hlutfall vistvænna ökutækja á vegum Reykjavíkurborgar árið 2016 var 82% en bifreiðar sem geta bæði notað metan og bensín eru taldar visthæfar þó að strangt til tekið sé ekki hægt að kalla þá vistvæna nema eingöngu sé notað metan. Í umhverfis- og auðlindastefnu sem sett var 2013 var markmiðið að 75% bílaflotans væri visthæfur og er því markmiði náð. Hins vegar þarf hlutfall visthæfra bíla að vera orðið 100% fyrir árið 2025 til að uppfylla markmið loftslagsstefnu frá 2016 um að bílafloti borgarinnar verði án losun gróðurhúsalofttegunda.

Tenglar

Grænt bókhald 

Reykjavík loftslagsmál