Græna planið og uppbygging íbúða

Samgöngur Umhverfi

""

Nýjustu upplýsingar um framkvæmdir á húsnæðismarkaði í Reykjavík verða kynntar í beinni útsendingu á föstudagsmorgun, 30. október kl. 9 – 11. Sent verður út á vef Reykjavíkurborgar – reykjavik.is/ibudir og þar má einnig sjá dagskrá.

Sérstök áhersla verður á samþykkt verkefni og framkvæmdir sem eru í gangi, auk þess sem sagt verður frá því hver verða næstu þróunarsvæðin í borginni.   

Reykjavík á vaxtarskeiði  

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnir Græna planið og segir frá hvernig borgin ætlar að sækja fram og fjárfesta í stað þess að halda sig til hlés. Umhverfisleg, fjárhagsleg og félagsleg sjálfbærni verður leiðarljós í ákvörðunum um hvernig borgin á að vaxa og dafna um leið og tryggt er að samfélagið verði fyrir alla.

Viðhorf íbúa og ný græn íbúðabyggð 

Niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar sem gerð var meðal íbúa um húsnæðismál verða kynntar.

Einnig verður sagt frá fyrirhugaðri uppbyggingu á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog, en nálægð þessa borgarhluta við strandlengjuna og grænan útivistarás Elliðaárdals skapar mikla sérstöðu innan höfuðborgarsvæðisins. Stefnt er á þétta umhverfisvæna byggð og hágæða almenningssamgöngur, en ekki síst grænt og fallegt hverfi.

Meiri borg, sjálfbær vöxtur 

Kröftugur og sjálfbær vöxtur borgarinnar til langrar framtíðar er leiðarljós við mótun breytinga á aðalskipulagi Reykjavíkur. Ætlunin er að skapa forsendur fyrir kröftugri vöxt borgarinnar jafnhliða því að styðja við markmið um kolefnishlutleysi, vernd náttúrusvæða og líffræðilega fjölbreytni og samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag. 

Boðaður er kröftugri vöxtur í Reykjavík en verið hefur undanfarna áratugi. Lagt er til að byggðar verði minnst 1.000 íbúðir á ári að meðaltali til ársins 2040 og að um 25% verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.

Dagskrá er að finna á reykjavik.is/ibudir