Græn og jákvæð umbreyting borgarinnar

Umhverfi

""

Frummælendur á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar nú stendur yfir í Kaldalóni í Hörpu voru sammála um nauðsyn þess að vinna saman og finna lausnir. Það er ekki lengur tími til að rífast.

Sigurjón Ragnar tók myndir

Á fundinum eru kynnt mikilvæg skref sem stigin hafa verið í málaflokknum, auk þess sem kynntar verða nýjungar þegar kemur að mælingum, framkvæmdum og nýsköpun tengdum loftslagsmálum. Á annað hundrað íslenskra fyrirtækja hafa nú þegar skrifað undir loftslagsyfirlýsingu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangs.

Aðalbjörg Egilsdóttir ungmennafulltrúi á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna á sviði loftslagsmála flutti erindi og sagði að það væri ekki lengur tími til að rífast heldur yrðum við að standa saman. „Það er ekki nóg að skrifa bara undir loftslagssamning,“ sagði hún, „takið vandann alvarlega og hjálpið öðrum til að byggja upp á sjálfbæran hátt.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra talaði á fundinum. Hann talaði um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem ríkisstjórnin samþykkti og ýmis verkefni eins kolefnisbindingu og endurheimt votlendis, og að opnað hafi verið fyrir  styrki úr loftslagssjóði. Honum varð tíðrætt um umbylting á hugarfari fólks sem hefur orðið á síðustu tveimur árum. „Verkefnið framundan er m.a. að fá öll norrænu ríkin til að setja loftslagsmál efst á blað,“ sagði hann og að sérstaklega þurfi að huga að loftslagsmálum í tengslum við sjávarútveg, landbúnað og byggingaiðnaðinn.“ Guðmundur Ingi telur að mikilvægustu viðmiðaskiptin í loftslagsmálum séu framundan.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bað  gesti að hugsa eitt ár aftur í tímann og sjá fyrir sér hvað margt hafi breyst í umræðunni. Hann nefndi að Reykjavíkurborg hafi gert fyrstu formlegu loftslagsstefnuna fyrir Parísarfundinn 2015. „Við erum að fara yfir þessa stefnu núna og herða á henni, sérstaklega út frá samgöngum, landnotkun, vitundarvakningu, úrgangsmálum, aðlögun að loftslagsbreytingum og rekstri Reykjavíkurborgar,“ sagði hann og nefndi ýmis dæmi, m.a. að borgin sé að undirbúa hirðu á lífrænum úrgangi, fækkun bensínstöðva og margt fleira.  „Næsti áratugur verður áratugur aðgerða, eigum að vinna saman og finna bestu leiðirnar. Eitt af því sem er að greinilega að gerast núna eru auknar hjólreiðar. „Við þurfum að að vinna saman að öllu því sem þokar borginni áfram,“ sagði Dagur.

Hrönn Ingólfsdóttir formaður Festu fjallaði um nauðsyn þess að allir vinni saman að lausnum í nýsköpun, sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Fyrirtæki og aðrir hagaðilar verða að taka saman höndum. "Gerum meira, sýnum ábyrgð í verki og vinnum saman. Þetta er ekki skrautfjöður heldur tungumál framtíðar," sagði hún.

Hrund Gunnsteinsdóttir var fundarstjóri. Fundurinn er vel sóttur. Hrönn Hrafnsdóttir og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir sérfræðingar hjá Reykjavíkurborg tóku þátt í undirbúningi fundarins. Hér fyrir neðan eru slóðir á kolefnisreikni og loftslagsmæli sem kynnir voru.

Ráðstefnuborgin og Skeljungur

Tveir nýir aðilar skrifuðu undir loftslagsyfirlýsinguna. Það var Ráðstefnuborgin Reykjavík og Skeljungur að þessu sinni. Þau ætla að efla sig í samfélagslegri ábyrgð og m.a. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka myndun úrgangs og mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta. 

Tengill

Kolefnisreiknir OR

Loftslagsmælir FESTU

Um fundinn: https://reykjavik.is/frettir/loftslagsfundur-festu-og-reykjavikurborgar

Bein útsending: https://reykjavik.is/frettir/loftslagsfundur-festu-og-reykjavikurborgar