Göngugötur í miðborg Reykjavíkur opna 1. maí

Mannlíf Samgöngur

""

Tímabil göngugatna í Reykjavík stendur yfir frá 1. maí til 1. október að þessu sinni og er markmiðið að efla mannlíf og verslun í miðborginni. 

Göngugötum er ætlað að auðga mannlíf miðborgarinnar og bæta aðgengi gangandi og hjólandi fólks að verslun og þjónustu. Göngugötur verða opnar í fimm mánuði á þessu tímabili og hefjast 1. maí næstkomandi.

Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur árið 2017 voru 75% svarenda jákvæðir gagnvart göngugötum en einungis 12% neikvæðir. Að sama skapi töldu 80% aðspurðra göngugöturnar hafa jákvæð áhrif á mannlíf miðborgarinnar.

Eins og undanfarin ár verða eftirfarandi götur göngugötur frá 1. maí til 1. október:

  • Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
  • Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.
  • Laugavegur og Bankastræti, frá Vatnsstíg að Þingholtsstræti
  • Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.

Öll umferð bifreiða verður óheimil á svæðinu að undanskilinni umferð vegna vörulosunar sem heimiluð verður milli kl. 7. og 11. virka daga.En næg bílastæði má finna í bílahúsum í nágrenninu. 

Bekkjum og blómakerum verður komið fyrir á svæðinu til að gleðja augað og lífga upp á mannlífið. Laugavegur verður málaður á kafla eins og síðustu ár og unnið að ýmsum sumarverkefnum á göngugötusvæðinu.

Lífleg hrein borg

Lífleg miðborg með auknum fjölda gesta er fagnaðarefni en því fylgir óneitanlega aukið álag á hreinsun og viðhald. Rekstraraðilar eru því beðnir um að leggja borginni lið við að halda umhverfinu snyrtilegu í kringum  starfsemi sína, sér í lagi veitingastaðir og kaffihús. Samstarf rekstraaðila og borgarinnar um þetta verkefni er mikilvægt til að það heppnist sem best.

Tenglar

Netfang fyrir göngugötur

Viðhorf til göngugatna