Góður andi á ráðstefnu um skammtímaþjónustu

Mannréttindi Velferð

""

Það ríkti mikil gleði og samhugur á þriggja daga alþjóðlegri ráðstefnu ISBA sem haldin var á Hilton Nordica í síðustu viku, 9.-11. október en þar var fjallað um skammtímaþjónustu og afþreyingu fyrir eldri borgara og fatlað fólk.

ISBA eru alþjóðleg grasrótarsamtök um skammtímaþjónustu og afþreyingu fyrir fatlað fólk og fjölskyldur þess.

Yfir 200 manns frá mörgum löndum sóttu ráðstefnuna á Nordica en velferðarsvið Reykjavíkurborgar var bakhjarl ráðstefnunnar. Þar af voru fjölmargir íslenskir sérfræðingar í skammtímaþjónustu.

Á ráðstefnunni hittist fagfólk og leikmenn og skiptist á reynslu og þekkingu varðandi skammtímaþjónustu og ýmsa afþreyingu bæði fyrir skjólstæðinga og ættingja þeirra.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru vel þekkt fólk í faginu. Birgitte Bonnerup, sálfræðingur frá háskólanum í Hróarskeldu í Danmörku hélt m.a. frábæran fyrirlestur um Ást og einmanaleika í atvinnulífi. Prófessor Roy McConkey frá Ulster háskóla á N-Írlandi fjallaði um réttindi fatlaðs fólks en hann er höfundur margra bóka um málefnið og hefur m.a. verið ráðgjafi Ólympíuleika fatlaðs fólks og Sameinuðu þjóðanna.

Hin skoska Sally Magnusson hélt fyrirlestur á ráðstefnunni um áhrif tónlistar á líðan heilabilaðs fólks. Sally er þekkt sjónvarpskona og rithöfundur í Skotlandi en hún á ættir að rekja til Íslands, er dóttir hins heimsþekkta sjónvarpsmanns Magnúsar Magnússonar. Sally var valin kona ársins í Skotlandi árið 2017 fyrir frumkvöðlastarf við umönnun Alzheimer sjúklinga. Móðir hennar var með Alzheimer sjúkdóminn og fékk umönnun í á heimili sínu þar til yfir lauk. Sally stofnaði samtökin Playlist for Life sem hafa komið tónlistarmeðferð fyrir bæði fatlað fólk og fólk með heilabilun rækilega á kortið. Í stuttu spjalli sagði Sally að nýlegar rannsóknir sýndu ótvírætt að það að spila rétta tónlist fyrir fólk með heilabilun eða skerta greind gæti bæði dregið úr lyfjanotkun, róað fólk og bætt líðan þess umtalsvert.

Að sögn Sallyar gengur tónlistarmeðferð fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma út á það að finna réttu tónlistina fyrir það. Settur er saman lagalisti með aðstoð ástvina og vina sem getur haft margvísleg jákvæð áhrif, bæði róað og lyft andanum. „Ég hef hitt fólk sem segist hafa endurheimt ástvini sína með þessari meðferð,“ segir Sally og bætir því við að í Skotlandi taki æ fleiri stofnanir upp slíkar aðferðir fyrir skjólstæðinga sína.

Hún segir að móðir hennar hafi ætíð elskað tónlist og þegar þær hlustuðu saman á píanóverk sem systir hennar spilaði sem unglingur hafi það alltaf haft mikil áhrif á hana, jafnvel þótt hún hafi verið langt gengin með sjúkdóminn.

„Að finna réttu tónlistina fyrir viðkomandi getur veitt mikla ánægju,“ segir þessi skelegga kona.

Bók Sallyjar Handan minninga, hvers vegna heilabilun breytir öllu kom út í íslenskri þýðngu fyrir nokkrum árum og fjallar um móður hennar. Sally sló tvær flugur í einu höggi í Íslandsheimsókninni núna því auk þess að halda fyrirlesturinn á   ISBA ráðstefnunni var hún einnig að kynna nýja skáldsögu sem nefnist Sagnaseiður en hún fjallar um Tyrkjaránið.

Á ráðstefnunni voru einnig vinnustofur auk þess sem skemmtikraftarnir, Edda Björgvins og Margrét Erla Maack héldu uppi fjörinu á milli fyrirlestra. Á vefsíðu ISBA er hægt að horfa á streymi frá allri ráðstefnunni.