Góð næring eykur lífsgæði

Velferð

""

Velferðarkaffi opinn fundur velferðarráðs var haldinn í Borgum félagsmiðstöð í Spönginni í morgun. Þar voru flutt fróðleg erindi um næringu eldri borgara.

Velferðarkaffi eru opnir fundir velferðarráðs um velferð í Reykjavík.  Að þessu sinni var umfjöllunarefnið næring eldri borgara og matarþjónusta við þá. Heiða Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, sagði málefnið þarft og vakti athygli á nýrri matarstefnu borgarinnar.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, dósent við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, greindi frá rannsóknum á matarræði eldri borgara og niðurstöðum þeirra. Rannsóknir hér styðja það sem hefur komið í ljós annars staðar í Evrópu að eldra fólk þarf að neyta meira prótíns. Hún benti á að fólk sé ekki endilega grannholda þótt það þjáist af næringarskorti því sumir geti verið í yfirvigt en samt verið með hörgulsjúkdóma.

Ólöf lagði áherslu á að vannæring sé sjúkdómur sem hafi alvarleg  áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Með góðri næringu er hægt að auka lífsgæði eldri borgara umtalsvert.

Fríða Rún Þórðardóttir, næringarfræðingur og næringarráðgjafi við eldhús Landspítala, sagði frá samvinnu sinni við eldhúsið á Vitatorgi. Hún fjallaði um ólíkar þarfir fólks og nauðsyn þess að hafa fjölbreytileika í fæðunni en einnig þyrfti að gæta þess að fólk fengi nægilega næringu. Hún benti líka á að miklu skipti að einhver sé hjá eldra fólki þegar það borðar.

Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður framleiðslueldhússins við Vitatorg, sagði frá framleiðslueldhúsinu, hvernig þjónustan er og hvernig þau sjá framtíðina fyrir sér. Framleiðslueldhúsið á Vitatorgi eldar heimsenda matinn og mat fyrir 17 félagsmiðstöðvar velferðarsviðs.

Á Vitatorgi er alltaf hugsað um þrjá mikilvæga þætti – næringu, gæði og bragð máltíðarinnar. Maturinn er hraðkældur sem hefur aukið mikið gæði matarins og nýlega var heimsendingarþjónustan bætt til muna.  Til stendur að auka þjónustuna með því að fólk geti stjórnað sinni matarþjónustu rafrænt. Fólk fær þá meira val og mun geta pantað mat í körfu.

Að lokum tóku fjórir notendur þjónustunnar til máls þau; Gunnar Torfason, Einar Jónsson,  Ingibjörg Ingólfsdóttir og Sigríður D. Benediktsdóttir.

Gunnar kvaðst vera mjög ánægður með matinn frá Vitatorgi en vildi fá ítarlegri  upplýsingar um næringargildi og innhald. Einar, sem er vanur sjómaður, vildi fá fiskinn minna unnin og feitari. Honum fannst líka sósur til óþurftar og fór með sósuvísu eftir Þórberg Þórðarson.

Ingibjörg sagðist vera ánægð þrjá daga af fimm en hún hringir óhikað í Eyjólf Einar sé hún óánægð.

Sigríði finnst maturinn frábær og það kom henni á óvart hve góður hann er en hún byrjaði að borða í Borgum fyrir hálfu ári.

Öll voru þau sammála um að þau vildu meiri fitu, rjóma og smjör.

Hér látum við fylgja vísukornið sem Einar fór með og er eftir Þórberg Þórðarson

Tak frá mér, Guð, allt sósusull,

seiddar steikur og þvílíkt drull!

Gefðu mér á minn græna disk

grautarsleikju og úldinn fisk.

Streymt var frá fundinum á FB síðu velferðarsviðs

Matarstefna Reykjavíkurborgar 2018-2022

Um heilsu og liðan eldri fólks á síðu Landlæknis