Góð hugmynd fyrir Hverfið mitt

Samgöngur Umhverfi

""

Hugmyndasöfnun um nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í Reykjavík hefst miðvikudaginn 20. mars á vefnum Hverfidmitt.is og stendur til 9. apríl.

Öllum er heimilt að skila inn hugmynd og eru hugmyndasmiðir hvattir til að skila vel unnum hugmyndum í samræmi við forsendur hugmyndasöfnunarinnar.

 „Góð hugmynd getur orðið enn betri ef hún er rædd í hópi íbúa,“ segir Guðbjörg Lára Másdóttir, verkefnisstjóri fyrir Hverfið mitt og hún hvetur íbúa til að eiga samtal við nágranna.  Hún bendir jafnframt á að þar sem hópar koma að hugmyndavinnu eigi hugmyndin vísara fylgi þegar kemur að kosningu í haust.  Guðbjörg og samstarfsmenn á þjónustumiðstöðvunum eru boðin og búi að gefa góð ráð og stuðning alla daga meðan hugmyndavefurinn er opinn.

Stöðugt hefur verið unnið að því að bæta samráðsferlið og auðvelda innsetningu hugmynda. Auk þess að lýsa hugmynd er hægt að láta ljósmyndir og teikningar fylgja til skýringar og í ár hefur verið bætt við þeim möguleikum að skila inn hugmynd á myndbandsformi eða sem hljóðupptöku. 

Það er í áttunda sinn sem íbúum er boðið til þátttöku um val nýframkvæmda og viðhaldsverkefna  í hverfum borgarinnar. Að lokinni hugmyndasöfnuninni tekur við úrvinnsla hugmynda þar sem frumdrög eru gerð ásamt kostnaðarútreikningi. Síðan er hugmyndum stillt upp á kjörseðil af hverfisráðum borgarinnar, sem síðan íbúar kjósa um.  Þátttaka í kosningum í fyrra var sú besta í þessu íbúalýðræðisverkefni. Kosningaaldur var í fyrra 15 ára og eldri og verður hann sá sami í ár.

Helstu tímasetningar:

  • Hugmyndasöfnun -  20. mars – 9. apríl 2019
  • Mat hugmynda, frumhönnun og undirbúningur kosninga  -  apríl til  október  2019
  • Íbúakosningar um framkvæmdir  -  24. október til 7. nóvember 2019
  • Framkvæmd kosinna hugmynda  -  apríl til september 2020

Tengdar síður: