Glöð til vinnu í 43 ár

Velferð Mannlíf

""

Jónína Jóhannesdóttir, starfsmaður í Álfalandi, skammtímavistun fyrir börn,  var í dag kvödd eftir 43 ára starf.  

Jónína byrjaði að vinna á Dalbraut, skammtímavistun fyrir börn árið 1976 og þegar Álfaland tók til starfa í Bústaðahverfinu 1987 flutti hún með börnunum. 

Í Álfalandi er rekin skammtímavistun fyrir langveik og fötluð börn. Markmiðið er að veita foreldrum eða forsjáraðilum fatlaðra  og langveikra barna skammtímavistun til að létta á heimilum og gefa forsjáraðilum kost á að komast í frí. Skammtímavistun er jafnfram afþreying og tilbreyting fyrir börnin, sem eru á aldrinum 2-12 ára. Þau geta dvalið frá einni nóttu í allt að eina viku hverju sinni.

Þegar spurð að því hvernig væri að vinna 43 ár á sama vinnustað sagði Jónína engan vinnudag eins og alltaf kæmu ný börn í vistun í Álfalandi. Skammtímavistunin er líka ljómandi góður vinnustaður og hún hefur átt mjög gott samstarfsfólk. „Stundum hefur þetta verið erfitt en aldrei leiðinlegt. Árin hafa flogið og ég hef alltaf hlakkað til að fara í vinnuna,“ segir Jónína og bætir við að það hafi líka hentað henni vel að vinna vaktavinnu.

Jónína furðar sig á því að hafa náð svo háum starfsaldri og hún er enn full af orku.  Hún ætlar að njóta eftirlaunaáranna en hún á fimm barnabörn frá 6 mánaða til 11 ára aldurs og hún ætlar að njóta meiri samvista með þeim. Hún iðkar sund og hana langar líka að nýta tímann til ferðalaga.  Eitt er víst að Jónína hefur næga orku til að njóta nýrra ævintýra nú þegar starfsárunum er lokið.  

Starfsfólk Álfalands, borgarstjóri og samstarfsfólk af velferðarsviði borgarinnar fögnuðu starfslokum með Jónínu í dag.

Meðal þeirra sem kvöddu Jónínu í dag voru Margrét Lísa Steingrímsdóttir og Markrún Óskarsdóttir en saman eiga þær stöllur 125 ára starfsafmæli í vinnu með börnum hjá Reykjavíkurborg.