Gleðiganga Hinsegin daga á morgun

föstudagur, 11. ágúst 2017

Nú er allt að verða klárt fyrir Gleðigöngu Hinsegin daga sem að þessu sinni fer frá Hverfisgötu og endar í Hljómskálagarðinum. Gangan fer af stað klukkan 14 og hvetur Reykjavíkurborg fólk til að koma gangandi, hjólandi eða með Strætó í bæinn.

  • Mikill mannfjöldi safnast saman í miðborginni til að fylgjast með Gleðigöngunni
    Mikill mannfjöldi safnast saman í miðborginni til að fylgjast með Gleðigöngunni

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli hverju sinni.

Spáð er blíðskaparveðri í Reykjavík á morgun og því má búast við miklum mannfjölda í bænum. 

Athugið! Í ár verða breytingar gerðar á gönguleið gleðigöngunnar. Uppstilling göngunnar verður frá kl. 11 á Hverfisgötu, milli Ingólfsstrætis og Klapparstígs. Gangan leggur stundvíslega af stað frá gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfstrætis kl. 14 og bíður ekki eftir neinum. Gengið verður niður Hverfisgötuna, eftir Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu þar sem glæsilegir útitónleikar taka við í Hljómskálagarðinum.  Götum í miðborginni verður lokað á meðan á göngu og skemmtiatriðum stendur.  Sjá kort neðar.

Gestir eru hvattir til að koma gangandi, hjólandi eða með strætó í miðborgina.Strætó gengur allan daginn. Athugið breytta áætlun á meðan götulokunum stendur – sjá straeto.is

Í miðborginni eru bílastæðahús sem oft hafa verið illa nýtt á meðan hátíðahöldunum stendur (sjá kort hér fyrir neðan) Um að gera að nota bílastæðahúsin og forðast sektir.

Gleðilega Gleðigöngu!

götulokanir gleðiganga