Gleði á menningarmóti í Sunnuási

Menningarmót í Sunnuási 2022

Vel heppnað menningarmót var haldið í leikskólanum Sunnuási í fyrsta sinn á dögunum fyrir elsta árgang leikskólans. Áhersla var lögð á einstaklinginn, menningu hans, áhugamál og styrkleika og æfðu börnin sig í að koma fram fyrir foreldra og systkini.

Fjársjóðskistur og söngatriði

Vinnan í kringum menningarmótið er í samræmi við áherslur skólans sem snúa að því að fagna fjölbreytileikanum og fjölmenningunni sem er að finna innan leikskólans, bæði í starfsmanna- og barnahópnum.

Börnin sungu fyrir framan gestina í opnunaratriði mótsins og sýndu svo hvað var að finna í fjársjóðskistum þeirra, hvað það er sem skiptir þau máli. Ágústa Dóra Kristínardóttir verkefnisstjóri fjölmenningar í leikskólanum, segir þakklæti ríkja fyrir þá kynningu og þau verkfæri sem þau í leikskólanum fengu fyrir menningarmótið sem á að halda aftur á næsta ári.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir er hugmyndasmiður verkefnisins. Hún hefur mótað menningarmótin í meira en tvo áratugi og leiðbeint við að innleiða verkefnið í fjölmörgum leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi og í Danmörku.  Það geta allir skólar haft samband við Kristínu og fengið handleiðslu til að innleiða menningarmót. Verkefnið er til dæmis tilvalið fyrir þá skóla sem eru nú þegar eða hafa áhuga á að gerast UNESCO-skólar.

Hér er hægt að skoða skemmtilegt myndband frá viðburðinum.