Glæsileg frammistaða í Skrekk- úrslitastundin nálgast

Menning og listir Skóli og frístund

Frá undankvöldi Skrekks 2022

Átta skólar eru komnir í úrslit í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna. Um 630 ungmenni stigu á svið fyrir hönd 24 skóla í þremur undankeppnum síðustu daga og sýndu glæsileg frumsamin atriði sem samin voru sérstaklega fyrir keppnina, sem fram fer á stóra sviði Borgarleikhússins. Ástæða er til að þakka öllum þátttakendum fyrir frábæra frammistöðu í ár og óska aðstandendum úrslitaatriðanna innilega til hamingju með árangurinn.

Undanúrslitakvöldin þrjú fóru fram á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í þessari viku og komust sex skólar áfram í úrslit: Fellaskóli með atriðið Efra Breiðholt, Hagaskóli með atriðið Gleym mér ei, Seljaskóli með atriðið Yndislegt líf, Sæmundarskóli með atriðið Af hverju ég?, Austurbæjarskóli með atriðið Kemur í ljós og Árbæjarskóli með atriðið Svið lífsins. Þá var í dag tilkynnt að dómnefnd hefði einnig valið áfram Langholtsskóla með atriðið Hin fullkomna þjóð og Réttarholtsskóla með atriðið Þetta unga fólk og keppa því átta skólar til úrslita. Úrslitakeppnin fer fram í Borgarleikhúsinu á mánudaginn, 14. nóvember kl. 20 og verður í beinni útsendingu á RÚV. 

Fjölbreytt og brýn umfjöllunarefni

Í Skrekk fá unglingar í grunnskólum Reykjavíkur að vinna með hugmyndir sínar og þróa sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins fyrir hönd síns skóla. Atriðin að þessu sinni fjalla um sjálfs­mynd ung­linga, áhrif samfélagsmiðla, tónlistar- og danssögu, missi, einelti, andlega erfiðleika, upplifun ungmenna af erlendum uppruna, mikilvægi þess að njóta lífsins og hafa gaman, ádeilu á íslenskt samfélag, heimilisofbeldi og ástarsögur. Unglingarnir nýta all­ar sviðslist­ir í atriðin; tónlist, dans, leik­list og gjörn­inga. Þau sjá um að semja atriðin, það er leik, dans, sögu og tónlist og sum eru jafnvel með frumsamin lög. Krakkarnir sjá líka um tækni­hliðina, bún­inga og förðun. Full­orðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.

Skrekkur er samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur og RÚV, í Borgarleikhúsinu. Skrekkur fékk tilnefningu til Íslensku Menntaverðlaunanna 2022 sem framúrskarandi þróunarverkefni.