Gjörningaklúbburinn Listahópur Reykjavíkur 2018

miðvikudagur, 10. janúar 2018

Úthlutun styrkja menningar- og ferðamálaráðs og útnefning Listhóps Reykjavíkur 2018 fór fram í Iðnó 10. janúar. Elsa Yeoman formaður ráðsins gerði grein fyrir úthlutuninni og öðru framlagi borgarinnar til menningarmála.

  • Jóní Jónsdóttir og Eirún Sigurðardóttir stofnendur Gjörningaklúbbsins ásam Elsu Yeoman formanni Menningar og ferðamálaráðs.
    Jóní Jónsdóttir og Eirún Sigurðardóttir stofnendur Gjörningaklúbbsins ásam Elsu Yeoman formanni Menningar og ferðamálaráðs.
  • Gjörningaklúbburinn flutti gjörninginn Aqua Maria við athöfnina í dag.
    Gjörningaklúbburinn flutti gjörninginn Aqua Maria við athöfnina í dag.
  • Styrkhafar samankomnir í Iðnó
    Styrkhafar samankomnir í Iðnó

Helstu nýmæli í styrkveitingum ársins eru þau að Reykjavíkurborg hefur leyst húsnæðisvanda Dansverkstæðisins með leigusamningi við Reiti til 15 ára um Hjarðarhaga 45 – 47. Með Dansverkstæðisinu er verið að skapa aðstöðu fyrir danslistina og nauðsynlegt vinnurými á viðráðanlegum kjörum. Gerður hefur verið samstarfssamningur við Dansverkstæðið til 3ja ára um 17 m.kr. árlega (þar af 15 m.kr. aukaframlag frá borgarráði) vegna aukins húsaleigukostnaðar og rekstrarumfangs.

Þá hafa verið gerðir nýir samstarfssamningar til þriggja ára við Nýlistasafnið um 17,3 m.kr. á ári og Kling og Bang um 8,5 m.kr. árlega. Þau fluttu inn í Marshallhúsið í mars síðastliðinn í góðu samstarfi við i8 og Ólaf Elíasson þar sem nú blómstrar metnaðarfull sýningastarfsemi og aukið faglegt samtal og miðlun á samtímamyndlist.

Þessi nýmæli eru að mestu utan hins árlega styrkjapotts en faghópi skipuðum fulltrúum Bandalags íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands var falið að fara yfir styrkumsóknir og leggja til styrki til menningar og lista upp á tæpar 66,5 m.kr. sem menningar- og ferðamálaráð samþykkti. Faghópurinn hafði 179 umsóknir til umfjöllunar sem námu samtals nam rúmum 282 m.kr..

Faghópurinn lagði til að umræddar tæplega 66,5 m.kr. til færu til 103 verkefna. Þar af myndu 8 listhópar, hátíðir og samtök hljóta nýjan samning til þriggja ára fyrir samtals 15,4 m.kr., en fyrir eru 20 hópar með eldri samninga í gildi.

Gjörningaklúbburinn var útnefndur Listhópur Reykjavíkur 2018 og nýtur styrks að upphæð 2 m.kr.  Hann flutti við opnunina gjörninginn Aqua Maria. Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporation var stofnaður árið 1996 af myndlistarkonunum Sigrúnu Hrólfsdóttur, Jóní Jónsdóttur og Eirúnu Sigurðardóttur, en tvær síðastnefndu starfa nú í klúbbnum. Gjörningaklúbburinn hefur unnið með flesta miðla myndlistar en starfar á mörkum listgreina og hefur á síðustu árum tengst sviðslistinni enn sterkari böndum. Hugmyndir Gjörningaklúbbsins tengjast oft félagslegum málefnum með feminískum áherslum í bland við glettni og hressandi einlægni. Gjörningaklúbburinn vinnur í þá miðla sem þjóna hugmyndum hans hverju sinni. Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim og hefur einnig sýnt gjörninga í óhefðbundnari rýmum og á sviðslistahátíðum.  Gjörningaklúbburinn hefur í tvo áratugi náð að  heilla borgarbúa með framandlegum uppákomum og sýningum.

Þeir sem hljóta nýjan samstarfssamning til þriggja ára frá árinu 2018 auk Dansverkstæðisins, Nýló og Kling og Bang eru Jazzhátíð Reykjavíkur með 3 m.kr. , Blúshátíð í Reykjavík með 2 m.kr. ; Myrkir músikdagar, Stórsveit Reykjavíkur, Tónlistarhópurinn Caput og Kammersveit Reykjavíkur með 1,8 m.kr. á ári og Kammerhópurinn Nordic Affect með 1 m.kr. árlega.

Hæsta árlega styrkinn hlaut svo Myndhöggvarafélagið í Reykjavík þar sem 1,4 m.kr. fara í sýningarröðina Hjólið og 1 m.kr til rekstrar félagsins. Ice Hot Reykjavík fær 2 m.kr. , Pera óperukollektíf 1,4 m.kr. og Mýrin félag um barnabókmenntahátíð 1,2 m.kr. Aðrir styrki nema hæst 1 m.kr. en lægst 200 þús. krónum.

Hæstu framlög til menningarlífsins í borginni fyrir utan rekstur menningarstofnana hennar fara til Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Jafnframt njóta Listahátíð í Reykjavík, Sviðslistamiðstöð í Tjarnarbíói, Sjónlistamiðstöð á Korpúlfsstöðum, Bíó Paradís, og Hönnunarmiðstöð og fleiri sjálfstæðir aðilar húsnæðis- og/eða rekstrarstyrkja.

STYRKVEITINGAR MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐS ÁRIÐ 2018  (Heildaryfirlit)