Gegn fordómum í garð hinsegin fólks

Nemendur Laugarnesskóla syngja lagið "Ég er eins og ég er" í tilefni dagsins.
Nemendur Laugarnesskóla syngja öll saman í sal skólans.

Alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks er haldin í dag, 17. maí.  Af því tilefni flaggar Borgin regnbogafánum við Ráðhúsið og í Borgartúni og nýtir þennan dag til að vinna gegn fordómum, fagna fjölbreytileikanum og auka sýnileika hinsegin fólks.

Víðar um borgina má einnig finna regnbogafána, þá sérstaklega hjá þeim starfsstöðum sem hafa hlotið Regnbogavottun Reykjavíkurborgar, en þeir eru nú orðnir 66 talsins, nú síðast Hlíðaskóli. Ýmsir regnbogavottaðir skólar og frístundamiðstöðvar halda upp á 17. maí með hinsegin fræðslu, umræðum og gleði.

Í hverri viku eru um og yfir 150 ungmenni sem mæta í Hinsegin félagsmiðstöðina og þar hófst í vor hinsegin félagsstarf fyrir 10-12 ára börn.

Borgarráð samþykkti 7. apríl síðastliðinn tillögu mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs um að tryggja ókyngreind almenningssalerni og búningsaðstöðu í nýju húsnæði borgarinnar og þegar um endurgerð er að ræða. Þetta er einungis brot af því sem er og hefur verið unnið að varðandi hinsegin málefni hjá borginni.

Margt hefur náðst hjá Reykjavík í réttindabaráttu hinsegin fólks. Enn er þó margt ógert og halda þarf áfram og gera enn betur. Um leið og við fögnum deginum þá heldur baráttan gegn fordómum áfram.

Frekari upplýsingar um hinsegin málefni hjá Reykjavíkurborg.