Geðheilsa á efri árum | Reykjavíkurborg

Geðheilsa á efri árum

föstudagur, 4. október 2013

Fjölbreytt dagskrá í tilefni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn verður haldinn hátíðlegur með göngu frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðuholt og hátíðardagskrá í Flóa í Hörpu þann 10. október næstkomandi. Úrræði á sviði geðheilbrigðismála taka höndum saman um fjölbreytta dagskrá dagana 7. - 13. október í tilefni dagsins. Yfirskrift dagsins er Geðheilsa á efri áru

  • Starfsmenn velferðarsvið sleppa gulum blöðrum.
    Gulum blöðrum sleppt í tilefni alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins.

Vakin hefur verið athygli á því að mun fleira eldra fólk á við ýmis geðræn vandamál að stríða heldur en haldið hefur verið. Algengast er að geðraskanir innan þessa hóps séu meðhöndlaðar með lyfjagjöf, oft mörgum lyfjategundum samtímis. Nýleg íslensk rannsókn Helgu Hansdóttur, lyf- og öldrunarlæknis, leiddi t.a.m. í ljós að ríflega 80% íbúa á hjúkrunarheimili væri ávísað geðlyfjum. Þar af væri um helmingur á þunglyndislyfjum. Gagnrýnt hefur verið í hversu litlum mæli komið hefur verið á móts við þennan hóp með öðrum úrræðum á borð við samtalsmeðferð og hópmeðferðir.

Á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum verður sjónum almennings einkum beint að Geðheilsu á efri árum. Dagskráin hefst með ávarpi borgarstjóra við Hallgrímskirkju kl. 16.00 þann 10. október. Því næst verður gengið niður Skólavörðuholt undir fjörugum tónlistarflutningi að Hörpu þar sem ljúfir tónar Vitatorgsbandsins munu hljóma til kl. 17:00. Þá hefst hátíðardagskráin með formlegum hætti með ávarpi forseta Íslands sem er verndari dagsins. Í kjölfarið mun Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og náttúruverndarsinni, segja frá eigin reynslu af geðrænum erfiðleikum. Að loknum tónlistarflutningi verður styrkjum veitt úr fræðslu- og forvarnarsjóðnum Þú getur. Á sama tíma fer fram kynning á ýmsum úrræðum innan geðheilbrigðisgeirans og sala á 10okt. bolum í Hörpu.

Boðið verður upp á kaffi og kleinur og 10% afsláttur verður af veitingum á veitingastaðnum Munnhörpunni á meðan dagskránni stendur

Eins og áður segir verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í tilefni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins dagana 7. -  13. október. Sem dæmi má nefna að opið hús með ýmsum viðburðum verður í mörgum úrræðum fyrir fólk með geðraskanir, s.s. Læk, Vin, Hugarafli, Hlutverkasetri og Klúbbnum Geysi. Opið hús með tónlistardagskrá og „bílskúrssölu“ verður í húsakynnum Geðhjálpar, Túngötu 7, laugardaginn 12. október.

Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu átaksins,  www.10okt.com