Gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu breytt

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við færslu á gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu. Eftir framkvæmdirnar munu gatnamótin verða svokölluð T gatnamót.

Framkvæmdir við breytingar á gatnamótum Geirsgötu, Lækjargötu og Kalkofnsvegar munu fara fram samhliða uppbyggingu á lóð Hörpu. Vegna uppbyggingarinnar á reitum Austurhafnar hefur umferðinni nú verið beint um bráðabirgða hjáleið.

Áætlað er að framkvæmdir við gatnamótin hefjist í mars og að hægt verði að opna þau í október á þessu ári. Lokafrágangur á göngu og hjólaleiðum verður hins vegar unninn samhliða uppbyggingu á lóð Hörpu á árunum 2018 og 2019. 

Í febrúar verður Lækjargata þrengd vegna framkvæmda við bílakjallara undir Geirsgötu. Akreinum vestan megin verður lokað og umferðin flutt á akreinarnar austan megin á götunni, þ.e. nær Arnarhól. Í mars þegar gatnaframkvæmdirnar hefjast verður Lækjargötu alveg lokað milli Geirsgötu og Hverfisgötu meðan unnið verður að endurnýjun lagna og uppbyggingu götunnar. Akstur strætó mun þá færast frá Sæbraut yfir á Hverfisgötu.

Eftir breytingarnar mun Geirsgata færast aðeins vestar og koma hornrétt á Lækjargötu/Kalkofnsveg.

Eftir breytingarnar verður 30 km hámarkshraði á þessum götum.

Hjólastígur verður í norðurkanti Geirsgötu og á Kalkofnsvegi. Göngu og hjólaleiðir á svæðinu verða upphitaðar með snjóbræðslukerfum.

Þá mun ný göngugata sem hefur hlotið nafnið Reykjastræti liggja frá Hörpu að Hafnarstræti og þvera Geirsgötu á upphækkuðu svæði.

Bílakjallari verður undir Geirsgötu og verður hann hluti af stærri bílakjallara sem nær frá Hörpu að Tryggvagötu.

Gert er ráð fyrir svokölluðum Snjallborgarlausnum (Smart City ) á svæðinu og þar verður m.a. notuð LED lýsing.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er 600 milljónir króna.

Kynning Geirsgata - Lækjargata

Lokanir og hjáleiðir

Framkvæmdasjá