Garðfuglahelgin gengur í garð

Umhverfi

""

Garðfuglahelgin er árlegur viðburður sem haldið er upp á út um allan heim. Þá er fólk hvatt til að fylgjast með fuglalífinu í garðinum heima hjá sér og greina og telja þær fuglategundir sem garðinn heimsækja. Upplagt er að laða að fugla með því að setja út ávexti, korn, brauð eða annað fóður. Ekki veitir af núna í vetrarhörkunum.

Gleymum ekki smáfuglunum !

Þessi setning er kunnugleg mörgum enda heyrist hún árlega hvern vetur hér á landi, sérstaklega þegar það er kalt í veðri og jarðbönn. Það á sannarlega við þessa dagana í höfuðborginni sem er þakin þéttri snjóhulu og frost eru áfram í kortunum. Spörfuglar og aðrir fuglar sem dvelja veturlangt í borginni reiða sig margir á góðar fóðurgjafir borgarbúa og vill Reykjavíkurborg hvetja alla sem geta og vilja að huga að smáfuglunum í garði sínum eða á hinum mörgu opnu svæðum borgarinnar.

Að gefa fuglunum er líka frábær leið til að kynnast fuglalífi borgarinnar betur og fylgjast má með hinum ýmsu fuglategundum en margir fuglar sækja í þéttbýlið yfir veturinn. Þess vegna er Garðfuglahelgin svo skemmtilegur viðburður sem full ástæða er til að kynna sér betur og taka þátt í. Það eru samtökin Fuglavernd sem standa að Garðfuglahelginni hér á landi og á síðu samtakana má nálgast upplýsingar um hvernig má taka þátt og hlaða niður sérstöku skráningarblaði. Á síðunni má líka finna upplýsingar um helstu garðfuglategundir hér á landi og um leiðir til að fóðra garðfugla.

Heimasíða Garðfuglahelgarinnar er eftirfarandi: https://fuglavernd.is/verkefnin/gardfuglar/gardfuglahelgi/

Í Grasagarði Reykjavíkur er fuglunum gefið reglulega. Þar er að finna stórt fuglabretti þar sem koma má fyrir ýmis konar fóðri og margir fuglar geta setið samtímis. Einnig eru smærri fuglagjafarar sem koma má fyrir í fínu korni sem laðar að t.d. auðnutittlinga og þá virkar vel að festa ávexti eins og epli á greinar. Skógarþrestir og svartþrestir eru sérstaklega hrifnir af ávöxtum og stundum laða þeir að sjaldgæfa gesti eins og silkitoppur. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru teknar í Grasagarðinum í vikunni.