Gangbrautarvarsla við Hringbraut tekin upp

Samgöngur

""

Ákveðið hefur verið að setja upp gangbrautarvörslu fyrir skólabörn við gangbraut yfir Hringbraut við Meistaravelli. 

Gæslan hefst við upphaf hvers skóladags og er áætlað að hún standi fram á vor.

Slys hafa átt sér stað á Hringbrautinni við gangbrautarljósin og er öryggi gangandi vegfarenda þar ábótavant. Einnig hefur verið ákveðið að boða til samráðsfundar með Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðinni sem er veghaldari Hringbrautar, Samgöngustofu og íbúasamtökum hverfisins ásamt samgönguskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir umferðaröryggi gangandi vegfarenda sé algjört forgangsmál hjá borgaryfirvöldum. „Það verður að lækka hámarkshraðann í götunni og bæta öryggi gangandi vegfarenda við allar gönguþveranir. Það skilar okkur mestum árangri ásamt því að bæta lýsinguna í götunni. Það verður einfaldlega ekki unað lengur við núverandi ástand, öryggi barna er ofar öllu.“

Í janúar árið 2017 kom út skýrsla starfshóps umhverfis- og skipulagssviðs um hraðaminnkandi aðgerðir vestan Kringlumýrarbrautar. Þar er m.a. lagt til að hraðamörk verði lækkuð um 10 km/klst. í tveimur áföngum á götum vestan Kringlumýrarbrautar þar sem hraðamörk eru 50 eða 60 km/klst. auk þess sem svæðum með 30 km/klst. hámarkshraða verði fjölgað og núverandi svæði stækkuð. Þar koma einnig fram tillögur um að gönguleiðir þvert á umferðargötur með 40 eða 50 km/klst. hámarkshraða, t.d. á Hringbraut við Framnesveg og Hofsvallagötu verði upphækkaðar og merktar með skýrari hætti.

Skýrsla um umferðarhraða