Gaflari og göngugarpur

Mannlíf

""

Ari Þorsteinsson, starfar sem umsjónarmaður fasteignar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ari er alltaf hress og kátur og fljótur að ganga í verkin.

Starf hans felur í sér að sinna öllu því sem kemur að daglegum rekstri Ráðhússins. Starfið er fjölbreytt og vinnudagurinn langur. „En mér leiðist aldrei,“ segir hann

„Við konan mín, Anna María Sigtryggsdóttir, njótum þess að stunda útivist. Við göngum mikið á fjöll bara við tvö en líka með góðum vinum. Við höfum farið út um allt land að ganga; á Hornstrandir, Móskarðshnúka, Helgafell og víðar. Mér líður best á fjöllum og skemmtilegasta fjall sem ég geng á er Vífilfell, mér finnst það mjög gaman. Við förum í fjallgöngur á sumrin og á veturna tökum við góða göngutúra eða förum í ræktina. Ég hef aðeins spilað golf og í fyrsta skipti sem ég prufaði keppti ég í Texas scramble og varð í 3. – 5. sæti. Ég hef stundum farið upp í Bása þegar ég á leið fram hjá til að æfa mig.“

Ari er Hafnfirðingur, einn af seinustu alvöru Göflurunum eins og hann segir sjálfur. „Ég er Gaflari langt aftur í ættir, gekk þar í skóla fram á unglingsár eða þangað til að Hafnarfjörður varð of lítill fyrir mig. Þá flutti ég til Reykjavíkur, ég var töffari og gerði ýmislegt sem ekki er í frásögur færandi og var ekki á góðum stað. Ég hef marga fjöruna sopið og ætla nú ekkert að fara að telja það upp hér.

Fyrir tólf árum breyttist allt en þá var ég búsettur á Spáni. Ég var að djamma og féll fram af húsþaki, en slasaðist sem betur fer ekki og lét sem ekkert hefði í skorist og stóð upp og hélt áfram. Daginn eftir gerði ég mér grein fyrir að svona gæti þetta ekki gengið og ákvað að snúa við blaðinu og fór í meðferð. Ég hef ekki séð eftir því. Þegar ég lít yfir farinn veg þá þakka ég bara fyrir að hafa lifað af og er svo feginn að hafa tekist að komast klakklaust frá þessum árum.

Ég er búinn að vinna hjá Reykjavíkurborg í á þriðja ár og er mjög ánægður hér í Ráðhúsinu. Hér er gott samstarfsfólk og góður andi. Ég er yfirleitt bara brosandi og glaður yfir því hvað ég á gott líf. Ég sinni fjölskyldunni í  frítímanum og vil vinna upp glataðan tíma frá mínum yngri árum. Ég hugsa betur um móður mína sem er orðin fullorðin og vil gera allt sem ég get fyrir hana. Ég nýt þess að heimsækja fjölskylduna og vera með barnabörnin, við erum heimakær og njótum samvista hvors annars ég og konan mín. Ég tel mig vera gæfumann í dag.“