Fyrsta skóflustungan tekin við Leirtjörn

Skipulagsmál Framkvæmdir

""

Fyrsta skóflustungan var tekin á nýju byggingarsvæði við Leirtjörn í Úlfarsárdal í gær. Bjarg íbúðafélag mun byggja 83 íbúðir í fjóruim byggingum á lóð sinni í Leirtjarnarlandinu sem er undir Úlfarsfellinu.

Framkvæmdir á svæðinu hefjast strax í næstu viku. Bjarg er langt komið með uppbyggingu á öðrum 83 íbúðum við Urðarbrunn 130-132 í dalnum en félagið reisir hagkvæmar leiguíbúðir fyrir félagsmenn verkalýðsfélaganna sem standa að því. Skóflustunga að þeim blokkum var tekin í lok apríl 2018 þannig að það hefur verið góður gangur í framkvæmdunum.

Við Leirtjörn hefur verið skipulagður nýr hverfishluti í Úlfarsárdal en þar verða 400 íbúðir og er allt til reiðu að hefja uppbygginguna.

Byggðin við Leirtjörn verður vistvæn að því leyti að notast verður við blágrænar ofanvatnslausnir og öllu yfirborðsvatni verður veitt í sjálfa Leirtjörnina. Þar í kring hefur verið skipulagt frábært útivistarsvæði. Að auki eru ótal möguleikar til útivistar í hinu nýja hverfi, t.a.m. göngur á Úlfarsfell og inn dalinn svo eitthvað sé nefnt eða meðfram Úlfarsánni sem er lax- og silungsá.

Land verður mótað þannig að Leirtjörn fær fasta bakka og rennsli frá henni verður stýrt um farveg í gilinu austan byggðarinnar niður í Úlfarsá. Tilgangurinn með því er að tryggja stöðugleika á vatnsborði tjarnarinnar. Gert er ráð fyrir góðum göngu- og hjólastígum sem tengist stígakerfinu í Úlfarsárdal. Leitast verður við að endurheimta náttúrulegt gróðurlendi með víðikjarri og engjagrasi.

Skyggnisbraut verður falleg borgargata með hjólastígum beggja vegna auk þess sem Urðartorg verður gróðursælt svæði sem býður upp á uppákomur og lifandi mannlíf.

Allt land sem fer undir Úlfarsárdalshverfi  er í eigu Reykjavíkurborgar. Landsvæðið, sem deiliskipulag Úlfarsdalshverfis tekur til, nær frá Leirtjörn í norðri suður að Úlfarsá og frá Mímisbrunni í vestri að gilinu austan við núverandi byggð. Mörk deiliskipulags eru skilgreind á uppdrætti. Heildarstærð hverfisins  er um 4 ha, brúttó. Landið er í um 90 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem það rís hæst. Um 1.300 íbúðir verða í Úlfarsárdal.