Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur

Skipulagsmál

Séð yfir Þingholtin, Tjörnina, Vatnsmýri og Vesturbæ úr lofti

Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur fjallar um stefnu um íbúðarbyggð 2010-2030/40.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti þann 20. júní  sl. verkefnislýsingu þar sem boðuð er umfangsmikil breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Áformuð breyting varðar einkum stefnu um íbúðarbyggð, markmið í húsnæðismálum, þéttleika byggðar og forgangsröðun helstu byggingarsvæða, með langtímasýn til ársins 2040. Við endurmat á stefnunni verða markmið í loftslagsmálum og um breyttar ferðavenjur lögð til grundvallar.

Það er brýnt að ráðast í heildræna skoðun á stefnunni um íbúðarbyggð nú, vegna mótunar skiplags fyrir nýjan borgarhluta í Ártúnshöfða og Elliðaárvogi. Hinn nýi borgarhluti í Elliðaárvogi verður stærsta skipulagsverkefni sem borgin hefur ráðist í á síðustu fjórum áratugum og því mikilvægt að skoða skipulag hans í stærra samhengi. Að meðtöldum nýjum íbúðum sem teknar eru að rísa í Vogabyggð, gætu risið á svæðinu hátt í átta þúsund íbúðir sem nemur um 15% stækkun á núverandi húsnæðisstofni borgarinnar. Önnur lykil ástæða fyrir endurmati á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð, eru áformin um byggingu Borgarlínu. Vegna skipulags Borgarlínu er mikilvægt að þétta byggðina ennfrekar í þágu hennar, almennt við biðstöðvar og sérstaklega við skilgreindar kjarnastöðvar.

Verklýsingin er nú til kynningar og umsagnar, sbr 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga og er óskað eftir því að  athugasemdum verði komið á framfæri á netfangið skipulag@reykjavik.is fyrir 12. ágúst  2019.  Þeir sem óska nánari upplýsinga geta snúið sér til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

Tenglar

Aðalskipulag Reykjavíkur: Íbúðabyggð 2010-2030/40 - verklýsing - viðauki matslýsing - júní 2019.