Fyrirhugað verkfall Eflingar fimmtudaginn 6. febrúar

Atvinnumál

""

Fyrirhugað verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefst á miðnætti í kvöld og stendur til miðnættis annað kvöld.

Verkfallsaðgerðirnar munu skerða þjónustu leikskóla borgarinnar, velferðarþjónustu og sorphirðu. Um 1.850 manns í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum. Mest verða áhrif verkfallsaðgerða á skóla- og frístundasviði þar sem um eitt þúsund Eflingarstarfsmenn starfa, mikill meirihluti þeirra í leikskólum. Gert er ráð fyrir að verkfallið hafi áhrif á um rúman helming leikskólabarna í borginni eða 3.500 börn. Þau börn sem fá vistun verður skipt upp í hópa, einn fyrir hádegi og annar eftir hádegi. Þá er fyrirséð að matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar raskast og þurfa nemendur þar að koma með nesti í skólann.  

Velferðarsvið fékk undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni er snýr að umönnun fatlaðs fólks, barna, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum. Hins vegar mun verkfallið hafa áhrif á um 1.650 notendur velferðarþjónustu. Þrif á heimilum fatlaðs fólks og aldraðra falla niður, sömuleiðis aðstoð við böðun. Ekki verður hægt að kaupa máltíðir á félagsmiðstöðvum og þá verður dagdvöl í Þorraseli lokuð á meðan verkfalli stendur.

Hjá Sorphirðunni frestast þjónusta sem og vetrarþjónusta eins og hálkuvarnir og snjóhreinsun.

Foreldrar og forráðamenn greiða ekki leikskólagjöld þá daga sem verkfall stendur og ekki heldur fyrir máltíðir sem falla niður.