Fuglaskoðun í Laugardal

Mannlíf Skóli og frístund

""

Laugardaginn 12. maí kl. 11 bjóða Grasagarður Reykjavíkur og Fuglavernd upp á fuglaskoðun í Laugardal en í Grasagarðinum er fjölskrúðugt fuglalíf.

Einar Ó. Þorleifsson náttúrufræðingur og Hannes Þór Hafsteinsson garðyrkjufræðingur leiða gönguna sem fer fram á alþjóðlega farfugladeginum. Þeir munu fræða gesti um þær fuglategundir sem fyrir augu ber auk þess að skoða hvaða tegundir plantna henta vel í fuglagarðinn. Snjallsímar verða notaðir til að spila fuglahljóð til að lokka fuglana að en þetta ráð hefur gefist vel til að sjá glókolla og músarrindla.

Fuglarnir í Grasagarðinum eru margir hverjir búnir að verpa og sum þrastapör virðast vera komin með unga. Auk þess hefur sést til glóbrystings í garðinum síðustu mánuði. Gestir eru hvattir til að koma með kíki með sér í gönguna.

Gangan hefst kl. 11 við aðalinngang Grasagarðsins, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.