Fuglalíf í fullu fjöri í Reykjavík

Umhverfi

""

Nú er hásumar og fuglalífið í borginni í algleymingi. Víða má sjá varp komið vel á veg og mæður með unga sína í eftirdragi. Fátt vekur meiri gleði en að fylgjast með nýju lífi fóta sig í hinum stóra heimi. Hér verður stiklað á stóru um stöðuna á fuglalífi borgarinnar en víðar er fylgst með varpi og ferðum fugla á náttúrusvæðum í borginni.

Vel er fylgst með varpárangri lunda í friðlandinu í Akurey á Kollafirði en eyjan er hluti af yfirgripsmikilli vöktun Náttúrustofu Suðurlands á lundavörpum landið um kring. Nýlega lauk síðari vitjun sumarsins og við skoðun á holum kom í ljós að ábúð hefur hækkað úr 74% í 79% frá því í fyrra, varpárangur er 0,85 og viðkoma 0,66 sem er ágætt. Lundar sáust bera sandsíli í töluverðum mæli en þau virtust í smærra lagi og því mögulegt að fæðuframboð gæti verið betra þó ástandið fari vissulega batnandi með ári hverju. Akurey var friðlýst fyrr á þessu ári og er vöktun lundavarpsins lykilþáttur í að fylgjast með verndarstöðu fuglafriðlandsins.

Kríuvarp hefur farið seint af stað víða um land og þar er varpið í Vatnsmýri og í hólmanum í Þorfinnstjörn í Hljómskálagarðinum engin undantekning. Töluverður fjöldi fugla hefur verið í varpinu á báðum stöðum en vel yfir 50 hreiður eru í Vatnsmýri og um 20 í Þorfinnshólma. Fyrstu ungarnir hafa verið að líta dagsins ljós á síðustu vikum. Kríurnar verja ungana af krafti og vegfarendur eiga oft fótum sínum fjör að launa.

Flestar andategundir eru nú komnar með unga en nokkuð breytilegt er hvenær varp þeirra nær hámarki yfir sumartímann. Meðfram ströndum borgarinnar má sjá æðarkollur með hálfstálpaða æðarunga kafa eftir kræklingi og öðru gómsæti úr grunnsævinu. Á vötnum og tjörnum t.d. á Reykjavíkurtjörn, á Rauðavatni, Elliðavatni og víðar má sjá skúfendur, duggendur og toppendur með unga en júlí er aðalútungunartími kaf- og fiskianda. Buslendur eins og stokkönd, gargönd og urtönd unga alla jafna út fyrr á sumrin og eru því víða með stálpaða unga en stokkendur geta þó orpið á ólíkum tímum og sjá má nýklakta hnoðra frá lok maí alveg fram í ágúst t.d. á Reykjavíkurtjörn.

Í upphafi sumars sást mjög mikið af flórgoða við Rauðavatn, þar sem þeir hafa verpt undanfarin þrjú ár. Alls sáust um átta pör og var með eftirvæntingu beðið eftir varptímanum. Hins vegar hefur þurrkatíð sumarsins valdið því að vatnshæð í Rauðavatni er afar lág og það hefur gert flórgoðanum erfitt fyrir að gera flothreiður við bakkagróðurinn. Við síðustu athugun sást aðeins til tveggja flórgoðapara og þau höfðu brugðið á það ráð að gera flothreiður úti í vatninu þar sem síkjamarinn stendur upp úr. Engir ungar hafa sést enn og því er sennilegt að um aðra atlögu að varpi sé að ræða.

Spörfuglavarp hefur verið í fullum gangi frá því í vor og langt síðan fyrst skóg- og svartþrastarungarnir sáust í görðum borgarbúa. Undanfarið hefur hvað mest borið á ungum maríuerlu og þúfutittlinga á opnum svæðum í borginni enda farfuglar sem tímasetja varp sitt nokkuð nákvæmar en þrestirnir sem eru að mestu staðfuglar í Reykjavík.

Fuglalíf í borginni er fjölskrúðugt og mörg frábær fuglasvæði. Hægt er að fræðast um fugla og fuglaskoðun í Reykjavík í bæklingi sem nálgast má hér í þessum hlekk.