Fuglahús í miðborginni

Borgarhönnun Umhverfi

Fuglahús uppi í tré í miðborginni.

Nýjustu íbúarnir í bænum eru ekki endilega mennskir því í lok maí voru sett upp 12 fuglahús við göngugötur, græn svæði eða torg í miðborginni. Staðsetning þessara hreiðurhúsa er í öllum tilfellum við gönguleiðir til að skapa sýnileika fyrir almenning. Með því er vonast til að vekja athygli á mikilvægi fugla í umhverfi okkar og ekki síður mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni í borgarumhverfinu.

Fuglahúsin eru af þremur ólíkum gerðum sem eru við hæfi þriggja mismunandi fuglategunda því það vilja ekki allir búa eins. Tegundirnar eru stari, skógarþröstur og maríuerla. Húsin fyrir skógarþröst eru enn fremur passleg fyrir svartþröst. Alls voru sex af húsunum fyrir stara, fjögur fyrir þresti og tvö fyrir maríuerlur.

Nú er bara að fara út í göngutúr í miðborginni og hafa augun opin fyrir þessum fiðruðu vinum og nýju húsunum.