Frumsýna eigin heimildarmynd í Laugarásbíói- „Tilfinningarnar eru dálítið úti um allt“

Kári Einarsson, Rommel Ivar Q. Patagoc, Adam Son Thai Huynh og Orri Eliasen

Laugarásbíó frumsýnir á morgun, 9. júní, nýja heimildarmynd sem ber nafnið Skrekkur- á bak við tjöldin. Efni myndarinnar er áhugavert, en ekki síður teymið að baki myndinni en þar eru á ferðinni fjórir strákar úr tíunda bekk Laugalækjarskóla.

Þeir Kári Einarsson, Rommel Ivar Q. Patagoc, Adam Son Thai Huynh og Orri Eliasen útskrifast úr Laugalækjarskóla í dag, 8. júní og á morgun frumsýna þeir heimildarmynd sína um þátttöku skólans í Skrekk, hæfileika- og sviðslistakeppni grunnskólanna í Reykjavík 2021. Myndin fjallar um ferðalag Laugalækjarskóla frá fyrstu æfingu fram að sýningu í Borgarleikhúsinu og er markmiðið að sýna hvað Skrekkur er mikilvægur fyrir menningu unglinga í Reykjavík og hvað keppnin hefur mikil áhrif á þá persónulega, á sjálfsmynd og félagsleg tengsl. Þessir hæfileikaríku vinir unnu í fyrra stuttmyndasamkeppnina Töku með myndinni Mjólk, en hana er hægt að finna á vefnum UngRUV.is

Tilhökkun vegur þyngra en stressið

Þegar við hittum strákana stóðu þeir í ströngu við að leggja lokahönd á myndina, enda stutt í frumsýningu. „Við erum aðallega spenntir,“ segir Orri, „en það er mikið um að vera. Við erum að klára myndina, svo er útskrift á morgun og frumsýning daginn eftir það. Þetta er skemmtileg vika en þetta er líka dálítið mikið,“ segir hann. „Ég er að kafna úr stressi,“ segir Kári með áherslu og Rommel tekur undir. „Maður er spenntur en varla að fatta að þetta er að gerast. Tilfinningarnar eru dálítið úti um allt. En við hlökkum mikið til að fólk fái að sjá þetta verkefni sem við erum búnir að leggja svo mikið í.“ 

Myndin er hluti af lokaverkefni þeirra frá Laugalækjarskóla, en útskriftarnemar vinna verkefni af fjölbreyttum toga og kynna þau fyrir foreldrum á sérstöku kynningarkvöldi. Strákarnir unnu einnig spurningakönnun um viðhorf þátttakenda til Skrekks sem á fjórða hundrað þátttakenda í Skrekk 2021 svöruðu. „Við áttum að setja fram rannsóknarspurningu og okkar var: Hvaða áhrif hefur Skrekkur? Við fengum rosalega skemmtileg svör,“ segja strákarnir, en niðurstöður þeirra sýna glöggt að Skrekkur hefur mikil áhrif á unglinga, persónulega og félagslega. 

Strákarnir unnu verkefnið saman en hver hefur sína styrkleika og sérsvið og segir Orri þá vera frábært teymi. „Ég hef verið í skipulagsdeildinni, talað við fjölmiðla og Laugarásbíó og fleira. Kári sá um tökurnar og klippir myndina ásamt Adam. Svo er Rommel með í skipulagsteyminu, tekur þátt í gerð efnis fyrir samfélagsmiðla og fleira,“ segir Orri. Í sjálfu Skrekksatriðinu var Rommel í aðalhlutverki og Orri var ljósamaður. 

„Margir deila þessum tilfinningum með okkur“

Kári var „reddari“ en eftir að hafa verið ljósamaður áður ákvað hann að þessu sinni að einbeita sér að því að ná góðu myndefni og tók hann allt ferlið upp, frá fyrstu æfingu og fram að sjálfu úrslitakvöldinu. Spurðir um hvernig hugmyndin að myndinni kviknaði kemur í ljós að Kári gerði mynd um þátttöku Laugalækjarskóla árið 2020. „Þá var það bara fyrir Skrekkshópinn til að fagna því hvað við höfðum verið að gera og hversu langt við komumst en mér fannst þetta sýna svo lítið af ferlinu. Það fer svo ótrúlega mikil vinna í Skrekksatriðin sem fólk sér ekki og þetta ferli allt er svo dýrmætt; fólkið sem maður kynnist og vinirnir sem maður eignast. Svo ég setti mér það markmið að taka allt ferlið upp núna í vetur. Svo tókum við viðtöl eftir á, meðal annars við þátttakendur, stjórnendur, kynni Skrekks og fleiri og nú er þetta orðið að mynd,“ segir hann. „Ég hef lengi haft áhuga á ljósmyndun og það voru ekki til fjölskyldumyndir heima hjá mér í nokkur ár því ég var alltaf með myndavélina hans pabba. Svo fermdist ég og gat keypt mína eigin myndavél og þá fór ég að spreyta mig á að taka myndbönd. Ég hef að mestu bara lært þetta sjálfur á netinu og verið að klippa núna í rúmlega ár. Við erum bara að prófa okkur áfram, leika okkur og reyna að gera eins og stóru strákarnir,“ segir hann. 

Kári tók upp um átta klukkustundir af efni auk þess sem heill dagur fór í að taka viðtöl. Myndin verður um 40 mínútur og fór um vika í að flokka efnið áður en klippivinnan hófst. Spurðir um það skemmtilegasta og erfiðasta í ferlinu eru þeir fljótir til svars. „Erfiðast var að klippa myndefnið niður,“ segir Adam og Kári tekur undir. „Já það hefur verið gígantísk vinna og mikil áskorun.“ Skrekkur sjálfur segir hann vera það skemmtilegasta við ferlið. „Skrekkur er ástæðan fyrir að við erum að þessu. Hann var hvatinn okkar og það sem keyrði okkur áfram,“ segir Kári og Orri bætir við að viðtalsvinnan hafi líka verið mjög skemmtileg en við hana fengu þeir aðstoð fagmanns. „Það var líka ógeðslega gaman að sjá svörin við könnuninni,“ segir Kári. „Þau voru svo ótrúlega falleg og þau sönnuðu fyrir okkur að margir deila þessum tilfinningum með okkur varðandi Skrekk. Hversu æðisleg þessi hátíð er og hversu magnaður viðburður.“ 

Að lenda í efstu sætunum ekki það verðmætasta

Strákarnir gerðu mest sjálfir en tala afar fallega um þau sem aðstoðuðu þá við verkefnið. Kári segist stefna beinustu leið á kvikmyndabransann og allir segjast þeir hafa áhuga á að fást meira við kvikmyndagerð í framtíðinni. Sviðslistamaðurinn Rommel hefur þó meiri áhuga á að vera fyrir framan myndavélina en fyrir aftan hana. Þeir eru allir á leið í skóla í haust; tveir á viðskiptabraut, einn á listabraut og einn á myndlistarbraut. En af hverju fannst þeim mikilvægt að búa til einmitt þessa mynd? „Við viljum hvetja fólk til að taka þátt,“ segir Adam og hinir taka undir. „Við vildum sýna hvað er mikið á bakvið svona Skrekksatriði, sýna allt ferlið og hvernig það myndast svona hópur, lítil fjölskylda af krökkum sem eru að gera þetta saman,“ segir Orri. „Við vildum sýna vináttuna og félagsskapinn, allt þetta góða, en líka áskoranirnar og allt sem þarf að kljást við til að gera þetta að veruleika. Svo langaði okkur að sýna að það að lenda í fyrsta, öðru eða þriðja sæti er ekki það verðmætasta eða eftirminnilegasta við það að keppa í Skrekk, heldur frekar allt fólkið sem maður kynnist og allar hinar minningarnar um að taka þátt. Þegar ég lít til baka þá er það alla vega það sem mér þykir vænst um.“ 

Strákarnir taka allir undir þessi sterku orð og Kári bætir við: „Í stuttu máli er markmið myndarinnar að fagna þessum æðislega viðburði og gera heiðarlega tilraun til að sýna hversu mikið er lagt í þetta. Og ef við náum að hvetja að minnsta kosti eina manneskju til að taka þátt í Skrekk á næsta ári, þá er markmiðinu náð.“ 

Við efumst ekki um að þeir nái því markmiði og spennan fyrir frumsýningu eykst hratt. „Skemmtilegasti og mest gefandi hlutinn af þessu ferli er að sjá fólk horfa á afurðina og upplifa hvað við höfum verið að brasa. Og ef fólk er glatt með þetta, þá fer ég að gráta,“ segir Kári með áherslu og hinir hlæja. „Þá verð ég mjög sáttur.“ 

Þeir minna þó á að svona stórt verkefni krefjist fórna. „Við fórnum ýmsu fyrir þetta. Tíminn líður hratt, við erum að fara á hraðferð í gegnum útskriftina og gefum okkur ekki tíma til að njóta því við þurfum að vera að brasa í þessu, klippa og passa að allt gangi upp. Við förum fyrr úr bekkjarpartýum til að hamast og klára þetta. En allt fyrir Skrekk, þetta verður þess virði!“ 

Framtíðin er björt

Myndin verður sýnd í Laugarásbíói fimmtudaginn 9. júní kl. 16.30, en Reykjavíkurráð ungmenna veitti hópnum styrk til að sýna myndina í bíó. Verður þetta eina bíósýningin og hægt er að kaupa miða á heimasíðu Laugarásbíós. Hér má horfa á stiklu úr myndinni. 

Loks er vert að benda á samfélagsmiðla á vegum myndarinnar, @skrekksmyndin á instagram og Tiktok. Þá eru Kári og Rommel með @kariogrommel á Tiktok. Eru þeir komnir með á þriðja þúsund fylgjendur og stefna á að pósta skemmtilegu efni í sumar. 

Við óskum strákunum til hamingju með útskriftina og myndina, framtíðin er björt!