Frú Ragnheiður hlýtur styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen

Mannlíf Mannréttindi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Frú Ragnheiði - skaðaminnkun styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Þetta er í 32. sinn sem veittur er styrkur úr sjóðnum og nemur styrkurinn 500 þúsund krónum. 

Frú Ragnheiður – skaðaminnkun, er verkefni á vegum Rauða krossins í Reykjavík, sem fer fram í sérinnréttuðum bíl sem keyrir um götur borgarinnar, og þangað geta einstaklingar komið og fengið almenna heilbrigðisaðstoð og fræðslu, auk þess sem boðið er upp á nálaskiptaþjónustu fyrir þá sem sprauta vímuefnum í æð. 

Unnið er samkvæmt hugmyndafræði skaðaminnkunar sem gengur út á að aðstoða fólk þar sem það er statt, en draga úr og lágmarka mögulegan skaða  með því að auðvelda þeim aðgengi að sárameðferð, hreinum nálum og sprautum og almennri fræðslu.

Borgarstjóri sagði við afhendingu styrksins að Frú Ragnheiður væri ákaflega vel að þessari viðurkenningu komin. „Verið er að veita ómetanlega þjónustu fyrir jaðarsetta einstaklinga sem eiga í fá hús að venda með því að færa starfið út á þá staði þar sem auðvelt er fyrir notendur að sækja sér aðstoð“. 

Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarð Briem 29. desember 1985 þegar liðin voru 75 ár frá fæðingu Gunnars. Valgarð Briem var viðstaddur athöfnina í Höfða.

Tilgangur sjóðsins er að veita styrk til einstaklinga eða hópa, stofnana eða félaga, á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála eða menningarmála. Gunnar Thoroddsen var borgarstjóri í Reykjavík í tólf ár – frá árinu 1947 til ársins 1959 og alþingismaður.