Frisbígolf í snjó og myrkri

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Ragnhildur, Heimir og Þorleifur tóku snjónum og lognblíðunni fagnandi á þriðjudagskvöldið og fóru í frisbígolf á Klambratúni. Þau eru félagar í Frisbígolffélagi Reykjavíkur og standa fyrir svokallaðri Ljósaseríu, kvöldmótum sem haldin eru vikulega yfir vetrartímann. Þau setja þá ljós í frisbígolfkörfurnar og sérstakar ljósdíóður á frisbídiskana til að finna þá auðveldlega í myrkrinu.

„Kvöldmótin í vetur hafa verið skemmtileg og fjölmenn,“ segir Birgir Ómarsson einn frisbígolfaranna.  „Frisbígolf er skemmtileg íþrótt og afþreying sem stunduð er af sífellt fleiri Reykvíkingum á öllum aldri“. Í borginni eru sjö frisbígolfvellir í almenningsgörðum og á útivistarsvæðum. Vinsælasti völlurinn er að sögn Birgis  án efa sá á Klambratúni og þar er spilað frisbígolf á hverjum einasta degi allan ársins hring. Vor, sumar og haust er oft þröng á þingi þegar veður er gott og frisbígolfarar flykkjast á vellina til að njóta útivistar og skemmtunar í þessum vinsæla leik.

Upplýsingar um frisbígolfvelli, mót og viðburði má sjá á vef Frisbígolffélags Reykjavíkur, www.fgr.is, og heimasíðu Íslenska frisbígolfsambandsins, www.folf.is.