Friðardagar í Reykjavík | Reykjavíkurborg

Friðardagar í Reykjavík

laugardagur, 6. október 2018

Reykjavík er höfuðborg í herlausu landi sem markar borginni sérstöðu. Í allri stefnumótun borgarinnar er lögð áhersla á mannréttindi og friðarstarf. Dagana 7. - 17. október mun Reykjavíkurborg og Höfði friðarsetur ásamt fleiri aðilum standa fyrir fjölbreyttum viðburðum sem tengjast friði og friðarumleitunum. 

  • Friðardagar í Reykjavík 7. - 17. okt.
    Í október eru friðardagar í Reykjavík. Höfði friðarsetur og Reykjavíkurborg ásamt fleiri aðilum halda utan um fjölbreytta viðburði sem tengjast friði og friðarumleitunum dagana 7. - 17. október.
  • The Imagine Forum: Youth on the Move
    Þann 10. október 2018 verður árleg alþjóðleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs haldin í þriðja sinn í Veröld húsi Vigdísar, Háskóla Íslands, frá kl. 09.30 - 17.00.

Friðarhorfur í Palestínu 7. október
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og RIFF standa að kvikmyndasýningu og málstofu, sunnudaginn 7. október í Bíó Paradís frá kl. 15:15 - 18:00.

Sýnd verður heimildarmyndin Naila og uppreisnin, sem fjallar um þátttöku kvenna í fyrstu borgaralegu uppreisn Palestínumanna en myndin er ein af tveimur áhugaverðum kvikmyndum um Palestínu sem sýndar verða á RIFF. Sjá dagskrá RIFF

Að sýningu lokinni ræðir Feda Abdelhady-Nasser, sendiherra og varafastafulltrúi Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum, stöðu mála í Palestínu og framtíðarhorfur. 
Nánari upplýsingar um viðburð hér.

 

Friðarsúlan í Viðey tendruð 9. október
Friðarsúlan í Viðey verður tendruð í 12. sinn með friðsælli athöfn á fæðingardegi John Lennon þriðjudaginn 9. október klukkan 20.00. Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardagur hans. Boðið er upp á fríar ferjusiglingar og strætóferðir fyrir og eftir tendrunina. Listasafn Reykjavíkur, Borgarsögusafn Reykjavíkur og fleiri halda úti dagskrá sem hefst kl. 17.45 og stendur til 21.00.

Tónlistarmaðurinn Högni mun vera með tónleika kl. 19 og tónlistarkonan GDRN kl. 20.30. Tónleikar fara fram í Naustinu við Friðarsúluna.
Nánari upplýsingar um viðburð hér.

 

Frá stríðsmenningu til friðarmenningar 9. - 17.október
Soka Gakkai á Íslandi í samstarfi við Kringluna standa fyrir myndasýningunni “ Frá stríðsmenningu til friðarmenningar”. 
Sýningin verður opnuð þann 9. október í Kringlunni, en hún er hönnuð af alþjóðasamtökum Soka Gakkai, sem eru aðilasamtök að ICAN sem vann friðarverðlaun Nobels fyrir baráttu sína fyrir útrýmingu kjarnavopna. Sýningin fjallar um mikilvægi þess að tryggja öryggi allra jarðarbúa, banna og útrýma kjarnorkuvopnum og styrkja störf í þágu friðar. Sýningin var fyrst sett upp í New York 2007 og hefur síða verið sett upp í meira en 230 borgum víða um heim.

 

Alþjóðleg ráðstefna Höfða friðarseturs 10. október
Þann 10. október 2018 verður árleg alþjóðleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs haldin í þriðja sinn í Veröld húsi Vigdísar, Háskóla Íslands, frá kl. 09.30 - 17.00. Á ráðstefnunni verður fjallað um stöðu flóttafólks í heiminum í dag og áhersla lögð á mikilvægt hlutverk ungs flóttafólks, frumkvöðla og aðgerðarsinna í að stuðla að jákvæðum breytingum.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni eru: JJ Bola, talsmaður UNHCR og ljóðaslammari, Pia Oberoi, sérfræðingur á sviði fólksflutninga og mannréttinda hjá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna, Sophia Mahfooz, framkvæmdastjóri SVIP, Nazanin Askari, femínisti og aðgerðarsinni, Kathy Gong, frumkvöðull og framkvæmdastjóri og meðstofnandi Wafa Games, Adam Elsod, stjórnarformaður og stofnandi The Young Republic og Harald Quintus-Bosz, kennari við D-Lab í MIT og CTO hjá Cooper Perkins. 

Skráning fer fram hér. 

Nánari upplýsingar um viðburðinn hér.

 

Friðar-ljóðagjörningur í Menningarsetri SGI 11. október
Fimmtudaginn 11. október, stendur Eyrún Ósk Jónsdóttir, skáld og leikkona fyrir friðar-ljóðagjörningi í Menningarsetri SGI búddistasamtakanna Laugavegi 178. Um er að ræða ljóða-hugleiðslu þar sem öll ljóðin fjalla um frið og kærleika og sannkölluð kyrrðartónlist ómar undir upplestrinum. 

Leikstjóri er Hildur Kristín Thorstensen en tónlistina samdi Viktor Aron Bragason. Öll ljóðin eru eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur.
Nánari upplýsingar HÉR