Friðardagar í Reykjavík | Reykjavíkurborg

Friðardagar í Reykjavík

föstudagur, 6. október 2017

Friðarverðlaunahafar Nóbels taka þátt í Friðardögum sem haldnir verða í Reykjavík 7. - 10. október 2017. Höfði friðarsetur skipuleggur viðburðina í samstarfi við Reykjavíkurborg. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá.

  • Höfði Friðarsetur
    Höfði Friðarsetur

Friðarskipið í Ráðhúsinu 7. október
Laugardaginn 7. október klukkan 11.00 - 12.30 verður dagskrá á vegum Friðarskipsins/Peace Boat í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Með Friðarskipinu kemur Akira Kawasaki, einn stofnanda ICAN samtakanna (International Campaign to Abolish Nuclear Weapons ICAN),  sem berjast gegn kjarnorkuvopnavá en samtökin hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár.

Friðarskipið hefur siglt um heiminn frá árinu 1983 til að vekja athygli á friði, mannréttindum og umhverfisvernd. Friðarboðskapinn flytja þeir sem lifðu af kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki árið 1945, fólk á aldrinum 75 til 81 ár sem var á barnsaldri þegar árásirnar voru gerðar. Það mun segja sögu sína, enda búa þau enn yfir lifandi minningum um daginn þegar heimurinn breyttist, til þess að benda á nauðsyn þess að stuðla að friði í heiminum. . 

Umræðutorg Höfða friðarseturs í Ráðhúsinu 7. október
Laugardaginn 7. október kl. 13:00 - 15:00 verður haldin hugmyndasamkeppni í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur þar sem einstaklingum og félagasamtökum gefst tækifæri til að ræða hugmyndir um það hvernig Reykjavíkurborg getur með nýsköpun stuðlað að friði. Viðburðurinn hefst á örkynningum á þeim hugmyndum sem taka þátt í keppninni. Hannes Ottósson, sérfræðingur í fyrirtækja- og hugmyndaþróun hjá Nýsköpunarmiðstöð, kynnir Business Model Canvas og þátttakendur ræða þær í minni hópum. Hugmyndunum verður svo komið á framfæri við Reykjavíkurborg en formaður borgarráðs, S. Björn Blöndal, stjórnar fundinum og tekur við hugmyndunum fyrir hönd borgarinnar. Umræðutorgið er frábær vettvangur til þess að efla tengslanetið og öðlast aukna færni í að móta, hanna og greina hugmyndir sem gætu gert Reykjavík að enn betri og friðsælli borg.
Skráning og frekari upplýsingar á www.fridarsetur.is

Friðarsúlan í Viðey tendruð þann 9. október
Friðarsúlan í Viðey verður tendruð í 11. sinn á fæðingardegi John Lennons, mánudaginn 9. október klukkan 21:00, og verður kveikt á henni til 8. desember sem er dánardagur hans. Yoko Ono kemur til landsins og býður upp á siglingar fyrir almenning yfir Viðeyjarsund. Einnig verður boðið upp á fríar strætóferðir á ferjustaðinn. Friðarsúlan er útilistaverk eftir Yoko Ono sem var reist í Viðey árið 2007 til að heiðra minningu Johns Lennons. Listaverkið er tákn fyrir baráttu Ono og Lennons fyrir heimsfriði.
Nánari dagskrá

Alþjóðleg ráðstefna Höfða friðarseturs 10/10
10. október kl. 10:00 - 17:00 í Veröld - húsi Vigdísar, Háskóla Íslands
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands ætla á þessari alþjóðlegu ráðstefnu að leggja áherslu á þau áhrif sem ungt fólk getur haft á samfélag sitt til góðs. Þar munu ólíkar kynslóðir ræða þær áskoranir sem blasa við í heiminum í dag og leita skapandi lausna og leiða til þess að takast á við þær.

Aðalfyrirlesarar eru:
Tawakkol Karman, handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011 og blaðamaður frá Jemen.  Hún hefur beitt sér fyrir tjáningarfrelsi og bættri stöðu kvenna í Jemen. Í því augnamiði stofnaði hún samtökin ,,Women Without Chains” í Jemen.
Unni Krishnan Karunakara, fræðimaður við Jackson Institute for Global Affairs við Yale háskóla og fyrrum forseti samtakanna Læknar án landamæra. Hann hefur meðal annars unnið í Eþíópíu, Azerbaijan, Bangladesh og Kongó auk þess að hafa sinnt rannsóknum og kennt í fjölmörgum háskólum víða um heim.
Faten Mahdi Al-Hussaini, baráttukona gegn öfgum og ofstæki og stofnandi JustUnity í Noregi. Hún er talskona norska Rauðakrossins gegn hatursorðræðu.

Frekari upplýsingar og skráning á vef Höfða Friðarseturs