Franska um allan heim

mánudagur, 20. mars 2017

Café Lingua Borgarbókasafninu í Grófinni verður í tilefni viku franskrar tungu á heimsvísu (La semaine de la francophonie) tileinkað franskri tungu. Kaffið verður miðvikudaginn 22. mars kl. 17.00.

  • ""
    Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu.
  • ""
    Sólveig Simha, frönskukennari, verður á Café Lingua.

Gestum gefst einstakt tækifæri til þess að upplifa „frönsku um allan heim“. Hægt verður að fræðast um margskonar orðtök, hreim og önnur atriði sem lita tungumálið og öðlast þannig nýja sýn á heiminum.

Á Café Lingua verður hægt að mæla sér mót við frönskumælandi einstaklinga frá ýmsum heimshornum sem búsettir eru á Íslandi, miðla eigin kynnum og reynslu af frönskumælandi menningarheimum, spjalla á frönsku eins og hún er töluð um allan heim og/eða njóta fræðandi ferðalags um hinn frönskumælandi heim í góðum félagsskap.

Meðal þeirra sem kynna eru íbúar frá öllum heimsálfum. Aðrir áhugasamir gestir sem vilja miðla kynnum sínum af og tengslum við franska tungu og menningu eru hvattir til að taka þátt.

Veitingar verða í boði Alliance Française.
Dagskráin er samstarf Borgarbókasafnsins við Alliance Française og fer fram í Borgarbókasafninu í Grófinni við Tryggvagötu 15.

Allir eru velkomnir og þátttaka er ókeypis.


Café Lingua – lifandi tungumál er tungumálavettvangur á vegum Borgarbókasafnsins í samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu.  Eitt af markmiðum Café Lingua er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands með fólki hvaðanæva að og auðgað mannlíf og menningu ásamt því að vekja forvitni borgarbúa á heiminum í kringum okkur. Café Lingua er gátt inn í mismunandi tungumála - og menningarheima og tilvalinn vettvangur fyrir þá sem vilja efla tungumálakunnáttu sína og hafa áhuga á að spreyta sig á hinum ýmsu tungumálum.