Framtíðarborgin Reykjavík | Reykjavíkurborg

Framtíðarborgin Reykjavík

föstudagur, 10. nóvember 2017

Framtíðarborgin verður til umræðu á næsta fundi á vegum umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar  sem haldinn er þriðjudaginn 14. nóvember kl. 20. á Kjarvalsstöðum.

 • Kjarvalsstaðir
  Kjarvalsstaðir
 • Anna Dröfn Ágústsdóttir
  Anna Dröfn Ágústsdóttir
 • Anna María Bogadóttir
  Anna María Bogadóttir
 • Ingvar Jón Bates Gíslason
  Ingvar Jón Bates Gíslason
 • Hjálmar Sveinsson
  Hjálmar Sveinsson

Framtíðarborgin er alltaf á teikniborðinu. Allir taka þátt í því að skapa borg með hegðun sinni, verkum, viðhorfum  og valdi.  Er framtíðin autt blað? Er framtíð Reykjavíkurborgar fyrirsjáanleg eða er hún óvissan ein?  „Hvernig borg viljum við búa í og hvernig borg viljum við skila af okkur til komandi kynslóða? Hvernig verður Reykjavík framtíðar?“ er spurt í ávarpi í ritinu Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Þar er horft langt inn í framtíðina í skipulags- og umhverfismálum. Framtíðin er opin bók – hvað stendur í henni?

Það er ekki aðeins nauðsynlegt að spá í framtíðina heldur einnig skemmtilegt því sjónarhornin eru svo mörg og ólík. Á 17. fundi sínum á Kjarvalsstöðum í fundarröð, þar sem umræðu um skipulags- og umhverfismál er færð í vítt og breitt samhengi, verða lögð fram nokkur áhugaverð sjónarhorn um framtíðarborgina.

Frummælendur eru Anna María Bogadóttir arkitekt, sýningarstjóri og menningarfrumkvöðull, Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og fagstjóri fræða í Listaháskóla Íslands, Ingvar Jón Bates Gíslason arkitekt, fræðimaður og listgagnrýnandi, ásamt Hjálmari Sveinssyni heimspekingi og formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

 Á fundinum er leitað er eftir gagnrýnni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Ekki er boðið upp á átök milli andstæðra sjónarmiða heldur felst aðferðin í því að greina og opna fyrir möguleika og að fólk haldi áfram að hugsa málin eftir fundina. Fundir af þessum toga hafa verið vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar. Rætt er á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni.

Hugsað um framtíðarborgina

Borgarmenning, borgarbragur, borg er hvers konar mergð, aragrúi af hverfum, húsum, görðum, götum, farartækjum, fólki, fuglum, trjám, ljósastaurum … mergð sem hefur margvísleg form, reglustrikað, lífrænt, hugsað og tilviljunarkennt. Borgin nemur aldrei staðar, hún breytist samkvæmt skipulagi og samskiptum – eða ekki?

Breytist borgin ef til vill í samræmi við breytt samskipti borgarbúa eða bregst hún öndverð við þeim, þannig að ef samskiptin verða rafræn eða hnattræn, að þá verði til torg og rými sem hvetja til nánari samskipta?

Hver borg býr yfir persónuleika eða sál sem vandasamt er að festa hendur á því þessi stemning er háð mergðinni og kynslóðunum sem líða í gegnum hana. Margir gera tilraun til að fanga anda borgarinnar, jafnt listamenn sem fagfólk í borgarfræðum og borgarhönnun, skipulagi, verkfræði og hverskonar arkitektúr.

Framtíðarborgin er iðulega á næsta leiti og verðugt umræðuefni, hægt er stíga eitt skref aftur í umræðunni og tvö áfram í leit að innsýn. Engin borg á að vera fullkomin, hver er eflaust með sýnu sniði og kemur á óvart.  Allir eru velkomnir á Kjarvalsstaði. Boðið er upp á kökur og kaffi og reynt að skapa kaffihúsastemningu.

Tengill

Upptökur af fundum á Kjarvalsstöðum

Yfirlit yfir fyrri fundi á Kjarvalsstöðum

Facebook viðburður