Framkvæmdir í Breiðholti fyrir um 350 milljónir

Framkvæmdir Fjármál

Borgarráð fékk í morgun kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum í Breiðholti á þessu ári. Þegar hefur verið hafist handa við framkvæmdir á átta stórum verkefnum sem munu kosta Reykjavíkurborg tæpar 297 milljónir. Að auki verður fjölmörgum smærri verkefnum hrint í framkvæmd í hverfinu í tengslum við verkefnið Betri hverfi, fyrir um 46 milljónir króna.

Borgarráð fundaði í Gerðubergi í Breiðholti í morgun og mun það vera í fyrsta sinn sem borgarráð fundar utan Ráðhúss Reykjavíkur. Þar voru fjölmörg mál sem tengjast Breiðholti sérstaklega rædd og afgreidd.

Meðal stórra verkefna í Breiðholtinu á þessu ári verða.

  • Endurbætur á lóð við Seljaskóla. Lokið verður við þriðja og síðasta áfanga endurbóta á skólalóðinni, sem felst m.a. í gerð útikennslurýmis. Kostnaður 65 milljónir króna.
  • Nýtt timburgólf í íþróttamiðstöðinni Austurbergi. Þar er dúklagt gólf í dag en sett verður nýtt uppbyggt, fjaðrandi timburgólf sem hentar betur fyrir innanhússíþróttir. Kostnaður 40 milljónir króna.
  • Hjóla- og göngustígur í Suður-Mjódd sem tengir svæðið stígum í Kópavogi. Verkefnið er unnið í samstarfi við Vegagerðina.
    Kostnaður 40 milljónir króna.
  • Hjóla- og göngustígur á Selhrygg. Verkefnið felst í tengingum á fimm stöðum úr Seljahverfi við göngu- og hjólastíg sem liggur Kópavogsmegin. Kostnaður 35 milljónir króna.
  • Endurbætur við Ölduselsskóla. Fyrirhugað er að bæta aðgengi og byggja anddyri. Þá hefst undirbúningur að endurgerð skólalóðar.
    Kostnaður 32 milljónir króna.
  • Gerðuberg. Endurbætur og viðhald á húsnæði menningarmiðstöðvarinnar. Ráðast þarf í endurbætur utanhúss, ljúka við byggingu tengigangs á milli Fagrabergs og Gerðubergs, auk þess sem veitingaaðstaða verður stækkuð og bætt. Kostnaður 25 milljónir króna.
  • Breiðholtslaug. Unnið er að hönnun nýs eimbaðs sem verður byggt á þessu ári. Kostnaður 30 milljónir króna.
  • Að auki verða göngu- og hjólaleiðir bættar í hverfinu fyrir um 30 milljónir króna. Verkefnið felst í endurbótum og viðhaldi á stígum.

 

Betri hverfi
Hverfapottur Breiðholts er 46 milljónir í ár. Framkvæmt er eftir hugmyndum að verkefnum sem berast frá íbúum að smærri nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum. Enn er hægt að koma með hugmyndir að verkefnum inn á samráðsvefinn www.betrireykjavik.is.
Er opið fyrir innsetningu á hugmyndum til 15. febrúar. Kosið verður um verkefnin í rafrænum íbúakosningum í Reykjavík, dagana 14. - 19. mars næstkomandi.

Talsverðar framkvæmdir hafa verið í Breiðholti undanfarin ár á vegum Reykjavíkurborgar. Nýr Fellastígur hefur verið byggður. Er framkvæmdum við hann nú að mestu lokið. Stígurinn liggur sunnan til meðfram löngu blokkinni í Fellahverfi. Alls nam kostnaður við stíginn um 110 milljónum króna. Þá hefur skólalóð Fellaskóla verið endurbyggð og er þeim framkvæmdum lokið.

Sjá kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum í Breiðholti.