Framkvæmdir hefjast við gas- og jarðgerðarstöð SORPU

Umhverfi

""

Skóflustunga var í gær tekin að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU í Álfsnesi. Þegar stöðin tekur til starfa árið 2020 mun eiga sér stað græn bylting í meðhöndlun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu.

Í stöðinni verður lífrænum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu breytt í lífdísil og hágæða jarðvegsbæti. Reiknað er með að gas- og jarðgerðarstöðin taki til starfa 2020. Með tilkomu stöðvarinnar mun allt að 95% alls lífræns úrgangs frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu fara til endurvinnslu og urðun á lífrænum heimilisúrgangi verður hætt. Í dag er endurnýtingarhlutfall úrgangs í Sorpu 49,4%.

Markmiðið með gas- og jarðgerðarstöðinni er að nýta sem best allan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum, s.s. matarleifar, gæludýraúrgang o.fl. Næringarefnin sem eru i lífrænum heimilisúrgangi munu ekki aðeins nýtast heldur einnig orkan sem verður til við niðurbrot úrgangsins. Ársframleiðsla stöðvarinnar er áætluð  þrjár milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti, sem hentar m.a. vel til landgræðslu.

Metangasið úr stöðinni kemur í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Þá mun framleiðsla jarðvegsbætis í stöðinni einnig draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Bygging og starfsemi stöðvarinnar verður því mikilvægt skref í því að uppfylla loftslagsmarkmið Íslands og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Ávinningur af framleiðslu metans er mikill en SORPA hefur framleitt metan sem ökutækjaeldsneyti síðan á árinu 2000. Alls hefur byggðasamlagið framleitt metan sem samsvarar 16,6 milljón lítrum af bensíni en notkun metansins hefur dregið úr útblæstri koltvísýrings sem samsvarar um 375 þúsund tonnum frá því verkefnið hófst.

Notkun metans í stað bensíns eða dísilolíu á ökutæki er ákaflega græn lausn fyrir umhverfið. Áætlanir gera ráð fyrir að metanframleiðsla SORPU tvöfaldist með tilkomu nýju stöðvarinnar og mun metan úr stöðinni koma í stað um fimm milljón bensínlítra árlega. 

Sótspor eins bensínsbíls er meira en 100 sambærilegra ökutækja sem ganga fyrir bensíni. Metan fékk Svansvottun árið 2016 og er eina umhverfisvottaða eldsneytið á Íslandi.

Flokkun á gleri, spilliefnum, raftækjum og plasti verður einnig aukin þegar stöðin hefur starfsemi.

Saga verkefnisins er orðin nokkuð löng en fyrstu hugmyndir um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar komu fram 2003. Farið var í ítarlega greiningu á verkefninu 2007 en bygging stöðvarinnar var boðin út vorið 2017.

Kostnaður við bygginguna og af tengdum verkefnum er áætlaður um 3,4 milljarðar og verður verkefnið fjármagnað með framlögum frá eigendum SORPU sem eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Ístak mun byggja stöðina.

Skóflustunguna að stöðinni tóku Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og fulltrúar frá sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu.