Fræðsludagskrá um lífríkið í borginni í sumar

Umhverfi Mannlíf

Býfluga á blómi

Á næstu vikum verður boðið upp á röð fræðslu- og upplifunarviðburða um náttúru og lífríki borgarinnar sem er í fullum skrúða á sumrin. Viðburðirnir eru í boði „Reykjavík-iðandi af lífi“ sem er fræðsluátak á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, í góðu samstarfi við fleiri aðila t.d. Grasagarð Reykjavíkur, Fuglavernd og Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Fræðsludagskrána má nálgast hér.

Í sumar verður m.a. boðið upp á að kynnast hinum merkilega fugli flórgoðanum sem hefur nýlega fjölgað mikið við Rauðavatn, kynnst verður ævintýraheimi fjörunnar í þangfjörunum við Ægisíðu og fuglalíf Viðeyjar skoðað. Fyrsti viðburðurinn er strax á morgun, laugardaginn 29. júní, og fer fram í Grasagarði Reykjavíkur. Hann kallast „Lífveruleit í Laugardal“ og er sérstaklega ætlaður fjölskyldum en þar gerast þátttakendur rannsakendur, kynnast hinu leynda lífríki Grasagarðsins og leysa nokkur einföld en fróðleg og skemmtileg verkefni.

Ekki liggur fyrir föst dagsetning fyrir alla viðburði og eru áhugasamir því hvattir til að fylgjast vel með Facebook-síðu „Reykjavík-iðandi af lífi“ en reynt verður að tímasetja viðburðina þannig að aðstæður verði sem bestar t.d. með tilliti til veðurs.

Nánari upplýsingar um fræðsluátakið má finna á vefsvæði á heimasíðu Reykjavíkur www.reykjavik.is/idandi og á Facebook www.facebook.com/reykjavikidandi