Forvarnarverkefni gegn kynbundnu ofbeldi fær drjúgan Evrópustyrk

Skóli og frístund

""

Á dögunum fór formlega af stað tveggja ára samstarfsverkefni á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, Ofbeldisforvarnaskólans og samstarfsaðila í Glasgow í Skotlandi. Markmið þess er að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Stefnan er að nýta aðferðir óformlegs náms í þessu verkefni, þann kraft, gleði og þekkingu á forvörnum sem er fyrir hendi innan íþrótta- og æskulýðsgeirans til að byggja upp kraftmiklar forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi.

Meðal þess sem verkefnið nær til á næstu tveimur árum er að halda námskeið fyrir starfsfólk, gera fræðsluefni fyrir foreldra, efna til ungmennaskipta, kennsluáfangar í HÍ og gera heimildamynd og myndbönd fyrir íþróttaþjálfara.

Verkefnið hlaut styrk upp á 176.854 evrur eða  25 milljónir króna úr æskulýðshluta Erasmus+ áætlunarinnar.