Foreldrar aftur velkomnir í húsnæði skóla- og frístundasviðs

Skóli og frístund

""

Nú er skólahald leik- og grunnskóla með hefðbundnum hætti. Sama á við um starfsemi dagforeldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og aðra lögbundna þjónustu á leik og grunnskólastigi. 

Fjöldatakmarkanir gilda um starfsmenn leik- og grunnskóla og um alla fullorðna á samkomum sem haldnar eru í skólabyggingum. Allir eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu í samskiptum eins og kostur er og er hámarksfjöldi fullorðinna í hverju rými 200. Það þarf að vera unnt að bjóða þeim sem það kjósa að halda 2 metra fjarlægð í skólabyggingum.

Ef boðið er upp á veitingar á samkomum á vegum leik- og grunnskóla, í frístunda- eða íþróttastarfi, er mælst til þess að þær séu í lágmarki. Matvæli skulu vera innpökkuð eða frá þeim þannig gengið að komast megi hjá notkun á sameiginlegum búnaði (könnur, áhöld, hnífapör) eða skapa aðstæður þar sem margir snerta sömu yfirborðsfleti.

Mælst er til þess að fólk komi ekki með mat að heiman til þess að deila með öðrum á slíkum samkomum. Hættustig almannavarna vegna COVID-19 er enn í gildi og því mikilvægt að hafa í huga að almennar sóttvarnarráðstafanir gilda í skólum sem og annars staðar.

Skólar eiga að fylgja viðbragðsáætlunum sínum varðandi möguleg smit. Mikilvægt er að leggja áfram áherslu á:

  • Almenn þrif, sérstaklega snertifleti sem margir koma við.
  • Aðgangur að sótthreinsandi vökva fyrir hendur sé hafður eins víða og talin er þörf á.
  • Fræðslu um sóttvarnir ef nýtt starfsfólk er að koma til starfa. Nánari upplýsingar er að finna á www.covid.is