Flórgoði á Tjörninni

Umhverfi

""

Stakur flórgoði sást 28. apríl og annar fugl bættist fljótlega við og dvöldu fulglarnir allavega út maí, segir í nýútkominni skýrslu umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar um fuglalíf á Tjörninni 2019. Flórgoði hefur sést tvisvar áður á Tjörninni en ekki dvalið líkt og nú.

Flórgoðarnir héldu sig mest við Litla-hólmann í Norðurtjörn og lifðu á hornsílum. „Flórgoða hefur fjölgað á Innnesjum síðustu ár og vonandi halda þeir áfram að sækja Tjörnina heim. Það væri lag að útbúa hreiðurstæði fyrir þá næsta vor líkt og gert hefur verið með góðum árangri í Vífilsstaðavatni,“ segir í skýrslunni en höfundar hennar eru Ólafur K. Nielsen og Jóhann Óli Hilmarsson.

Sex andategundir við Tjörnina

Sex andategundir urpu við Tjörnina sumarið 2019. Stokkönd, gargönd, duggönd og skúfönd hafa verið árvissir varpfuglar frá upphafi talninga. Einnig fundust urtönd og toppönd með unga. Urtönd hefur orpið árlega frá 2014 og toppendur verpa endrum og eins. Enginn æðarfugl gerði tilraun til varps.

Urtönd er nýr varpfugl

„Söngur æðarblikans er horfinn en hann er eitt af því sem einkenndi Tjörnina á vorin,“ segir Ólafur K. Nielsen, annar skýrsluhöfunda, en bætir við að það séu jákvæð atriði þarna líka. „Urtöndin er komin aftur og byrjuð að verpa. Rauðhöfðanum hefur fjölgað síðustu ár. Hann var nær horfinn af Tjörninni.“

Fuglafána Tjarnarinnar hefur verið vöktuð frá árinu 1973. Tilgangurinn er að fylgjast með stofnbreytingum og þessi vöktun hefur beinst að andfuglum (gæsum og öndum) og einnig kríu, en ekki mófuglum í Vatnsmýrinni. Talið var þrisvar sinnum árið 2019, í apríl, maí og í júlí.

Varpstofnum gargandar og duggandar hefur hnignað verulega og æðurin er nær horfin af svæðinu. Stokkönd hefur líka fækkað verulega frá 2007 og skúfandarstofninn er einnig á niðurleið.

„Langvarandi viðkomubrestur stendur andastofnunum fyrir þrifum og það hnignunarskeið sem nú
stendur yfir hefur varað í um 15 ár,“ segir í skýrslunni og eru gefnar þrjár skýringar á lélegri afkoma andarunga, fæðuskortur, afrán og hnignun búsvæða.

Afrán katta, hrafna og máva

Ólafur segir samverkun þessara þátta vera að verki. „Við vitum að það hafa verið miklar breytingar á lífríki. Marflóin er horfin úr Tjörninni og mýið er nær horfið,“ segir Ólafur. Hann segir að hvað afránið varði, þá herji kettir á fuglana, auk hrafna og máva. „Það er alltaf þrengt meira að þessum náttúrulegu svæðum í Vatnsmýrinni þar sem fuglarnir verpa,“ segir hann um umhverfið.

„Það væri hægt að draga úr þessum neikvæðu áhrifum með markvissu ræktunarstarfi og umhirðu. Stefnan hefur verið að láta fuglana sjá um sig sjálfa og fylgjast með úr fjarlægð.“

Komið var með fugla á Tjörnina á sjötta áratuginum og voru þeir vængstýfðir og því ófleygir og var starfandi eftirlistsmaður sem sá um fóðrun.

Tjörnin er núna opið kerfi, útskýrir Ólafur, fuglarnir eru ekki vængstýfðir heldur fleygir og frjálsir og koma og fara.

Andarungaeldi hefur borið árangur

„Vorin 2014 og 2015 var spyrnt við fótum og borgaryfirvöld stóðu að andarungaeldi við Tjörnina til að styðja við hnignandi stofna og það starf hefur borið árangur. Haustið 2017 voru ágengar plöntur í kríuvarpinu í Þorfinnshólma upprættar og haustið 2018 í kríuvarpinu í Vatnsmýrarfriðlandi. Líkt og við höfum áður sagt, þá fögnum við þessu frumkvæði og hvetjum til að haldið verði áfram á sömu braut og jafnframt að ráðinn verði eftirlitsmaður til að sjá um umhirðu Tjarnarfuglanna,“ segir í skýrslunni.

Kríuvarp misfórst að mestu árið 2019

Kríuvarp var á tveimur stöðum við Tjörnina 2019, í Vatnsmýrinni og Þorfinnshólma. Þetta er sama dreifing og verið hefur á kríuvarpinu frá árinu 2012. Í talningu 17. maí sáust 134 kríur við Tjörnina. Í talningu 25. júlí sáust 70 fullorðnar kríur og 8 nýlega fleygir ungar. Ljóst er að kríuvarpið hefur að mestu misfarist 2019. Líkleg skýring á er fæðuskortur en afrán gæti líka spilað hér rullu.

Ræktunarstarf og eftirlitsmaður

Skýrsluhöfundar hvetja til þess að lögð sé áhersla á ræktunarstarf á ný og að starf eftirlitsmanns væri tekið upp á ný en staðan var aflögð á níunda áratuginum. „Boðskapur okkar er sá sami og fyrr og í hnotskurn felast tillögur okkar í því að viðhalda umgjörðinni, stunda ræktunarstarf og hafa eftirlitsmann með Tjarnarfuglunum. Umgjörðin er svæðið í heild sinni: tjarnir, bakkar, hólmar og friðlandið í Vatnsmýri. Umgjörðin nær einnig til vatnasviðs Tjarnarinnar.

Með viðhaldi er átt við verk líkt og að koma í veg fyrir landbrot í Vatnsmýrinni, tryggja að hávaxnar plöntur líkt og hvönn og kerfill kaffæri ekki kríuvarpið, o.fl. Með ræktunarstarfi er vísað til árangurs andasleppinganna frá 1956 og 1957 og okkar tillaga er að haldið verði áfram með slíkt starf. Eftirlitsmaður með Tjarnarfuglum sinnir daglegum þörfum fuglanna yfir vor og sumar,“ skrifa þeir og halda áfram:

„Sumum af tillögum okkar um aðgerðir hefur verið fylgt eftir og við fögnum því. Nægir hér að nefna stofnun friðlands fugla í Vatnsmýri á sínum tíma og nú síðast slepping andarunga 2014 og 2015, og umbætur í kríuvarpinu í Þorfinnshólma og Vatnsmýri.“

Skýrsluna er hægt að lesa í heild sinni hér.