Flóra Reykjavíkur skartar sínu fegursta

Umhverfi

""

Flóra Reykjavíkur er einstaklega fögur um þessar mundir en á bak við hana stendur metnaðarfullur hópur. Á haustin er ákveðið hver verður þemalitur sumarsins og það verður tilefni til innblásturs og alls konar hugmynda. Fjölbreytileikinn einkennir blómskrúð borgarinnar en meginblómaliturinn í sumar er rauður.  

Ljósmyndirnar sýna aðeins brot frá nokkrum stöðum og gefa vísbendingu um það sem finna má.

Skrúðgarðastöðin á Klambratúni þjónar Vesturbæ, Miðbæ, Austurbæ að Elliðaám sunnan Suðurlandsbrautar og Laugavegi að Snorrabraut. Verkbækistöðin sér um allt viðhald skrúðgarða á þessu svæði, slátt, hirðing trjágróðurs, útplöntun sumarblóma og niðursetningu haustlauka í skrúðgörðum. Einnig um hirðingu allra blómabeða og umhirðu á blómakerum og -körfum, bæði á opnum svæðum og stofnanalóðum.

85 þúsund blóm í sumar

Á svæðinu eru tólf skrúðgarðar, 85 þúsund blóm í sumar og 152 blómakörfur en í júní þurfti að nota mikinn tíma í að vökva. „ Sumarið er fallegt,“ segir Guðlaug F. Þorsteinsdóttir rekstrarstjóri skrúðgarðanna á Klambratúni og að blómakörfurnar séu í sex útgáfum. Einnig eru 103 menningarnæturblómaker, þar af eru um 50 í stórum kerum sem dreift er út um alla borg. Á vorin eru settar niður páskaliljur á vorin, sumarið skartar auðvitað sumarblómum og á haustin er sígrænn gróður og skrautkál sem haustskreyting. Þá eru 72 opin svæði ónefnd, götutré, vistgötubeð ...

Skrúðgarðarnir eru Garðaflöt, Grundargerði, Klambratún, Einarsgarður, Hljómskálagarður, Hallargarður, Mæðragarður, Útitaflið, Austurvöllur, Fógetagarður og Landakotstún. Unnið hefur verið að því að endurgera nokkra garða t.d. Garðaflöt. Þá þarf að slá og tína arfa. Austurvöllur er sleginn tvisvar í viku en aðrir garðar á sjö til átta daga fresti. „Það er mikill metnaður í starfsfólkinu, það vill bara gera vel og sjá afrakstur verka sinna,“ segir Guðlaug sem er afar stolt af starfsfólkinu og hvetur borgarbúa til að fara í blómaskoðunarferð.

Hellulögn með trjádrumbum

Það þurfti að fella töluvert af grenitrjám í fyrra og bolirnir hafa verið nýttir, m.a. varð til dreki sem er staðsettur í Bjarkarlaundi Hljómskálagarðsins og efni í hellur. Hellulögn með trjádrumbum er meðal nýjunga í ár og má sjá það til dæmis á Landakotstúni á stöðum þar sem fólk labbar ósjálfrátt yfir þótt ekki sé gert ráð fyrir því. „Það er þá betra að gera göngustíg úr tréhellum til að koma í veg fyrir að fólk stígi á blómin,“ segir Guðlaug.

Gullfiskurinn Dóra úr Finding Dory og Finding Nemo kvikmyndunum mun birtast á Hringbrautargrasinu í sumar og hefur þegar tekið á sig mynd. „Það verður gaman að sjá sporðinn bylgjast í vindi,“ segir Guðlaug.

Eitt gróðurverkið hjá starfsfólkinu er tilvísun í verkið Óður til mánans eftir Finn Jónsson og mun það koma smátt og smátt í ljós í heimreiðarbeðinu í Hljómskálagarðinum. Reykjavík Pride merkið verður svo gróðursett í tilefni af Hinsegin dögum. Margt skemmtilegt hefur verið gert undanfarin ár og má nefna broskarla, geimverur, yin og yang táknið og fleira sem glatt hefur borgarbúa.

Markmiðið að fegra og gleðja

Reykjavík er því fögur um þessar mundir, þökk sé starfsfólki í skrúðgörðunum. Þetta er bara ein af öflugum vinnustöðum skrifstofu reksturs og umhirðu hjá umhverfis- og skipulagssviði. Önnur verkbækistöð þjónar Breiðholti, Árbæ, Ártúnsholti, Norðlingaholti, Selási, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarsárdal, Hálsum, Höfðum og Kjalarnesi. Sú þriðja sér um Laugardalnum, þar með talið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og á tjaldstæðunum. Ræktunarstöðin sér um alla ræktun fyrir sumarblóm og tré og runna og ræktar eftir pöntunum sem sendar eru inn á hverju hausti fyrir næsta ár. Við segjum frá þeim síðar.

"Þau vinna saman sem eitt teymi og það er góður mórall og mikil samkennd enda vinna þau öll að sama markmiði að fegra og gleðja," segir Guðlaug F. Þorsteinsdóttir.

Borgarbúar,  gestir og ljósmyndarar eru hvattir til að taka eftir fegurðinni sem sjá má í borgarlandinu, ekki aðeins í skrúðgörðum, heldur í beðum víða um borg