Fleiri komast í skólahjómsveit

Mannlíf Menning og listir

""

Nú í haust stækka skólahljómsveitirnar í Reykjavík, en þeim verður heimilt að taka inn 130 nemendur í stað 120. Samtals geta því 520 nemendur verið í skólahljómsveitum í Reykjavík.

Hækkun framlaga til skólahljómsveita voru samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs nú í vikunni. Með henni er komið til móts við óskir stjórnenda sveitanna um að kjörstærð skólahljómsveitanna sé 130-140 börn.  Hækkun framlags mun einnig nýtast þeim nemendum sem þurfa sérstakan stuðning í hljómsveitarstarfinu.

Reykjavíkurborg rekur fjórar skólahljómsveitir; Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts og Skólahljómsveit Grafarvogs.
Nemendur fá einkakennslu á hljóðfæri á grundvelli aðalnámskrár tónlistarskóla  og skylda er að taka þátt í hljómsveitaræfingum og starfi hljómsveitanna.

Fyrir ári síðan, haustið 2016, var heimilt að hafa alls 441 nemanda í skólahljómsveitum borgarinnar en 1. janúar 2017 var fjölgað í sveitunum og heimild hækkuð í 480 nemendur eða 120 nemendur í hverri sveit., Með samþykkt ráðsins nú fjölgar nemendum í 130 í hverri sveit eins og áður segir.

Almennt er mikil ánægja hjá foreldrum með starf skólahljómsveitanna. Kostnaðarþátttöku foreldra er markvisst haldið í lágmarki og felst annars vegar í gjöldum sem falla undir ráðstöfun frístundakorts og hins vegar hljóðfæraleigu fyrir þá sem þurfa. Gjöldin vegna 2016-2017 voru 27.350 kr. og hljóðfæragjald 8.300 kr.

Í vinnu með starfsmönnum hljómsveitanna í vor  kom fram sterk ósk um geta sett saman smærri samspilshópa samhliða hinu sterka hljómsveitarstarfi. Slíkt myndi styrkja nemendur sem tónlistarmenn og þjálfa þá í að nýta möguleikana sem ýmsar hljóðfærasamsetningar bjóða upp á. Settir verðar fjármunir til að gera tilraunir í þessa átt og fylgt eftir hvernig það nýtist og reynist.