Flautusnillingur, jazzpúkar, hjólalistir og rapp á Barnamenningarhátíð 2019

Skóli og frístund Menning og listir

""

Barnamenningarhátíð í Reykjavík verður haldin dagana 9.–14. apríl nk. Hátíðin er ein sú umfangsmesta á vegum borgarinnar og undirstrikar mikilvægi þátttöku barna í mótun borgarmenningar.

Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og fara fjölbreyttir viðburðir fram í grunnskólum, leikskólum, frístundamiðstöðvum og menningarstofnunum. Í ár býður Breiðholt heim og verður Ævintýrahöllin í Gerðubergi þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra.

Viðburðirnir eru fjölbreyttir og það er frítt inn á þá alla. Með því er aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn opnað öllum.

Fjölbreytt Dagskrá Barnamenningarhátíðar 2019

Flautusnillingur, krakkakarókí, hjólalistir og rapp er meðal þess sem boðið verður upp á en það er bara brot af því sem í boði er. Kynnið ykkur dagskrána, viðburðir af öllum stærðum og gerðum fyrir alla fjölskylduna.

Miðvikudagurinn 10. apríl klukkan 17.00

Sýning flautumannsins sem kemur alla leið frá Ungverjalandi. Flautumaðurinn Gabor Vosteen er mikill tónlistarsnillingur, spilar á margar flautur í einu og leikur ýmsar töfrandi listir á meðan. Hann spilar á eitt einfaldasta hljóðfærið, blokkflautuna, á undraverðan og æsilegan hátt í fáránlega fyndinni sýningu. Verið viðbúin að sjá einstakan meistara að störfum og hlæja hressilega.

Fimmtudaginn 11.apríl í Hafnarhús kl. 10.00 eða 11.00

Er myndlist stærðfræði? Er stærðfræði myndlist?  Nemendur Landakotsskóla vinna að  innsetningu í anda sýningar Önnu Guðjónsdóttur sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur. Rautt og rými, þrívíddarstrengir og skemmtilegir skúlptúrar.

Föstudagur 12. apríl klukkan 15:00

Með ungum augum – leikin leiðsögn fyrir börn samin af börnum

Ungir leikarar Leynileikhússins rýna atburði og siði fyrri alda út frá grunnsýningu Þjóðminjasafnsins og setja á svið eitt og annað sem þeim finnst merkilegt. Hvað er það sem er fyndnast, skrýtnast, skemmtilegast, eða yfir höfuð frásagnarvert í augum skapandi krakka? Við hvetjum börn til að koma og skoða sýningu Þjóðminjasafnsins í túlkun jafnaldra sinna. Fullorðnir eru velkomnir með.

Ævintýrahöllin í Gerðubergi 13. – 14. apríl

Fjölbreytt dagskrá alla helgina. Þar verður byrjað á fjölskyldujóga á laugardagsmorgni og endað á Krakkareifi á sunnudagsseinnipart. Inn á milli verða upplestrar úr barnabókum, smiðjur, leiksýningar, tónleikar, Emmsje Gauti, krakkakarókí og endalaust margt fleira.

Draumar geta ræst – lag Barnamenningarhátíðar 2019

Lagið Draumar geta ræst er samstarfsverkefni barna í 4. bekk í grunnskólum Reykjavíkur, Braga Valdimars Skúlasonar og Jóns Jónssonar tónlistarmanns. Börnin horfðu á leikþátt sem fjallaði um að láta sig dreyma og að láta drauma sína rætast, og veltu þau fyrir sér spurningum um hverjir draumar þeirra væru, fyrir þau sjálf, aðra og fyrir allan heiminn. Verkefnið tengist innleiðingu nýrrar menntastefnu Reykjavíkur en yfirskrift hennar er: „Látum draumana ræstast“.

Krakkarnir munu flytja lagið með Jóni Jónssyni í Eldborgarsal Hörpu á opnunarviðburði hátíðarinnar í Hörpu á morgun 9. apríl.

Draumar geta ræst

Mamma, pabbi, afi og amma og allir hinir eru hvattir til að nýta þetta einstaka tækifæri og njóta barnamenningar með börnunum á Barnamenningarhátíð.

Góða skemmtun.

Kynntu þér dagskrá Barnamenningarhátíðar á barnamenningarhatid.is