Fjölmennur stefnumótunarfundur velferðarráðs | Reykjavíkurborg

Fjölmennur stefnumótunarfundur velferðarráðs

föstudagur, 10. ágúst 2018

Velferðarráð hélt í dag stefnumótunarfund með fjölmörgum áheyrnarfulltrúum frá samtökum sem vinna að málefnum fólks sem á við margvíslegan vanda að stríða, meðal annars húsnæðisleysi.

 

  • Fundur velferðarráðs með áheyrnarfulltrúum frá samtökum sem vinna að málefnum fólks sem á við margvíslegan vanda að stríða.
    Fundur velferðarráðs með áheyrnarfulltrúum frá samtökum sem vinna að málefnum fólks sem á við margvíslegan vanda að stríða.
  • Frá fundi velferðarráðs í Borgartúni 12-14
    Frá fundi velferðarráðs í Borgartúni 12-14

Fundurinn var haldinn í Hofi í Borgartúni 12-14 og var ákveðið að bjóða öllum hagsmunasamtökum sem vinna að málefnum heimilislausra einstaklinga eða fólks sem er án fastrar búsetu til fundarins til að fara yfir stöðuna og ræða leiðir til úrbóta. Tímabært er að hefja endurskoðun stefnu Reykjavíkurborgar í þessum málum en núverandi stefna nær til loka þessa árs. Fundurinn markaði því upphaf stefnumótunar en notendasamráð verður haft að leiðarljósi í þeirri vinnu. Fulltrúar frá um 25 aðilum, bæði opinberum stofnunum og frjálsum félagasamtökum sátu fundinn, m.a. frá Rauða krossi Íslands, Samhjálp, SÁÁ, Afstöðu, Barnaverndarstofu,Kærleikssamtökunum, Geðhjálp, Hlaðgerðarkoti og Hjálpræðishernum og fengu allir að leggja fram tillögur til úrbóta. Í umræðum var samhljómur um nauðsyn þess að hagsmunaaðilar og notendur þjónustu hittu kjörna fulltrúa og embættismenn sem fara fyrir málaflokknum og skiptust á skoðunum. Þá voru ýmis úrræði nefnd, s.s. þörf á fleiri áfangaheimilum og ítrekað bent á mikilvægi þess að þjónustukeðjan slitnaði ekki, til dæmis í kjölfar áfengismeðferðar eða meðferðar á geðdeild. Allar hugmyndir sem komu fram á fundinum verða til umfjöllunar í stýrihóp um stefnumótun í málaflokknum, sem var skipaður í lok fundar velferðarráðs. 

Á fundinum var einnig samþykkt að vísa beiðni um kaup á nýju húsnæði fyrir neyðarskýli fyrir unga heimilislausa vímuefnaneytendur til borgarráðs. Samkvæmt tillögunni verða settar 60 milljónir í stofnkostnað vegna úrræðisins en að auki verða útgjöld til málaflokksins aukin um 135 milljónir króna á ári frá og með næstu áramótum en það er sá kostnaður sem fellur til vegna reksturs neyðarskýlisins. Með nýju neyðarskýli verður hægt að aðgreina hóp yngri og eldri karla en ungum mönnum sem neyta vímuefna um æð hefur fjölgað hlutfallslega í Gistiskýlinu við Lindargötu á undanförnum árum. Það að hafa einstaklinga með svo ólíkt neyslumynstur og á ólíkum aldri þykir skapa hættu bæði fyrir þjónustuþegana og starfsmenn. Með úrræðinu verður hægt að veita báðum hópunum betri þjónustu.

Hin tillagan sem samþykkt var á fundinum var að óska eftir fjárveitingu í borgarráði til kaupa eða leigu á húsnæði, t.d. gistiheimili þar sem hægt væri að útbúa um 25 rúmgóð herbergi eða einstaklingsíbúðir með sérstöku salerni og eldhúskrók sem neyðarhúsnæði fyrir þá einstaklinga sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Enn fremur er óskað eftir sérstakri fjárveitingu upp 22 milljónir króna til að mæta kostnaði vegna húsvörslu og stuðnings við íbúa.

Á fundinum var einnig samþykkt að vísa tillögum frá minnihlutanum sem fjallað var um í borgarráði 31. júlí sl. til nýstofnaðs stýrihóps en borgarráð vísaði tillögunum til meðferðar velferðarráðs.