Fjölmennt samtal um unglingamenningu

Skóli og frístund Velferð

Unglingaþing í Hörpu 2023 um unglingamenningu.

Samtal um unglingamenningu fór fram í Hörpu í dag þar sem um 520 nemendur úr níu grunnskólum borgarinnar mættu á unglingaþing. Markmiðið var að hefja samtal við unglingana og gefa þeim færi á að ræða ýmis mál sem snúa að unglingamenningu og samskiptum í samfélaginu.

Rætt var um ofbeldi og samskipti

Lögreglan og verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar héldu erindi og ræddu við unglingana um ofbeldi - andlegt, líkamlegt og starfrænt, fjölbreytileikann, mörk, jákvæð/neikvæð samskipti, virðingu, umburðarlyndi og viðurlög svo eitthvað sé nefnt. Leitast var eftir hugmyndum frá unglingunum um hvað megi betur fara og hvernig auka megi traust svo að hægt sé hjálpa þeim þegar erfið mál koma upp. Þá mætti Jón Jónsson til að ýta undir góða stemningu og lagði sitt af mörkun til að dýpka samtalið.

Málefnin dýpkuð í minni hópum

Allir nemendur í 9. bekk í grunnskólum í austurhluta borgarinnar voru boðaðir á þingið sem haldið var í Silfurbergi fyrir hádegi í dag. Austurmiðstöð stóð fyrir þinginu og í kjölfar erindanna voru umræður í litlum hópum þar sem unglingunum gafst tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og heyra sjónarmið annarra. Vonir standa til að þarna hafi skapast tækifæri til að styrkja jákvæð samskipti unglinga.

Austurmiðstöð sem sinnir skóla- og frístundaþjónustu og velferðarþjónustu í austurhluta Reykjavíkur skipulagði þingið sem Lýðheilsusjóður Reykjavíkurborgar styrkti.