Fjölmennt á Loftslagsfundi | Reykjavíkurborg

Fjölmennt á Loftslagsfundi

föstudagur, 8. desember 2017

Fjölmenni var samankomið á Loftslagsfundi Reykjavíkurborgar og Festu sem haldinn var í Hörpu í morgun.

 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
  Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundinum í morgun.
 • Fjölmenni var á Loftlagsfundi í Kaldalóni í Hörpu í morgun.
  Fjölmenni var á Loftlagsfundi í Kaldalóni í Hörpu í morgun.
 • Borgarstjóri fór yfir aðgerðir Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum.
  Borgarstjóri fór yfir aðgerðir Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum.
 • Flokkun úrgangsefna er mikilvæg varðandi loftslagsmálin.
  Flokkun úrgangsefna er mikilvæg varðandi loftslagsmálin.
 • Þau hlutu Loftslagsverðlaunin í ár.
  Þau hlutu Loftslagsverðlaun Festu og Reykjavíkurborgar. F.v. Dagur B. Eggertsson, Björn Óli Hauksson forstjóri ISAVIA, Sveinn Atli Guðjónsson og Höskuldur Búi Jónsson frá vefnum loftslag.is, Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri Granda og Fanney Karlsdóttir formaður Festu.
 • Skrifað undir loftlagssamning.
  Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, Rannveig Grétarsdóttir, forstjóri Eldingar og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu loftlagssamning við Eldingu.
 • Loftlagssamningur við Mannvit.
  Ketill Berg Magnússon frá Festu, Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri Mannvits og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri en Mannvit skrifaði undir loftslagssamning á fundinum.

Þetta er í annað sinn sem Reykjavíkurborg og Festa halda Loftslagsfund og bauð Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gesti velkomna. Fyrstur á mælendaskrá var nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Guðmundur Ingi fjallaði í ræðu sinni mikilvægi þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að farið verði markvisst í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fjallað er um loftslagsmálin í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og sagði Guðmundur Ingi að reynt yrði af fremsta megni að standa við þau fyrirheit sem gefin eru þar en að auki hefði hann metnað til að gera enn betur. Guðmundur sagði m.a. í ræðu sinni að Íslendingar hefðu náð þeim ótrúlega áfanga að verða sjálfbærir í húshitun og rafmagni. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fór yfir það sem Reykjavíkurborg er að gera í loftslagsmálum. Fyrst ber þar að nefna þéttingu byggðar og áform sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um hágæða samgöngukerfi sem nefnt hefur verið Borgarlínan. Dagur sagði frá fjölgun hleðslustöðva fyrir rafbíla en borgin hyggst fjölga þeim umtalsvert á næstu mánuðum í bílastæðahúsum og á völdum stöðum í borginni. Þá sagði hann frá uppbyggingu hjólreiðastíga en Reykjavíkurborg leggur nú 500 milljónir króna á ári í stígagerð fyrir reiðhjól. Dagur sagði afar mikilvægt að ríkisstjórnin legðist þungt á árarnar varðandi fyrirhugaða uppbyggingu við Borgarlínuna og orkuskipti í samgöngum.

Fanney Karlsdóttir formaður Festu fjallaði um þann ótrúlega áhuga sem íslensk fyrirtæki hafa sýnt loftslagsmálunum en 104 skrifuðu undir Loftslagssamning Festu og Reykjavíkurborgar. Í dag bættust tvö fyrirtæki við en það voru ferðaþjónustufyrirtækið Elding og Mannvit. Samkvæmt rannsókn sem Festa og Reykjavíkurborg létu gera meðal þátttakenda í loftslagsverkefninu telja 98% að loftslagsaðgerðir skapi virði fyrir bæði fyrirtæki og samfélag. Fanney brýndi auk þess fyrir fyrirtækjum að setja sér markmið og mæla þau eins og aðra mikilvæga þætti í rekstri fyrirtækja

Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar sem sér um að útfæra flestar aðgerðir borgarinnar í loftslagsmálum lýsti ferð sinni og Hrannar Hrafnsdóttur, sérfræðings í loftlagsmálum hjá Reykjavíkurborg á loftlagsfundinn COP23 í Bonn í nóvember sl. Ólöf sagði að þar hefði verið talað af fullri alvöru og það sem kom henni einna mest á óvart var hvernig bandarískar borgir og fyrirtæki ætluðu sér að standa við loftslagssamninginn og ná markmiðunum jafnvel þótt Donald Trump forseti hefði aðra stefnu.

Stefán Einarsson sérfræðingur frá umhverfisráðuneytinu fjallaði um það hvernig magn koltvísýrings CO2 hefur aukist jafnt og þétt í andrúmsloftinu á síðustu áratugum. Þá sagði hann frá þróun loftslagssamninga og það hvernig Parísarsamkomulagið 2015 hefði markað tímamót og hvaða skuldbindingar Ísland hefði tekið á sig í þessum samningum.

Jón Ágúst Þorsteinsson frá fyrirtækinu Klappir kynnti því næst gjaldfrjálsa vefgátt þar sem fyrirtæki geta skráð markmið sín og árangur í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Að fyrirlestrum loknum var boðið upp á marga örfyrirlestra á Norðurbryggju Hörpu fyrir framan Kaldalón en þar kynntu félagasamtök og fyrirtæki alls konar starfsemi og lausnir í loftslagsmálum.

„Mætingin var alveg frábær og augljóst að áhugi á loftslagsmálum og aðkomu fyrirtækja  er að aukast.“ sagði Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu en hann var fundarstjóri á fundinum. „Þetta verkefni er mjög þarft og við hlökkum til að sjá hvar við stöndum á loftslagsfundinum að ári.